Skúli Tómas Gunnlausson, fyrrverandi yfirlæknir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS), hefur undanfarið sinnt sjúklingum á Landspítalanum þrátt fyrir yfirlýsingu stofnunarinnar frá því í desember um að hann myndi ekki gera það.
RÚV greinir frá þessu.
Mál Skúla hafa mikið verið í fréttum undanfarin misseri en hann hefur verið kærður til lögreglu fyrir manndráp og er til rannsóknar vegna gruns um að hafa verið valdur að ótímabæru andláti 9 sjúklinga með því að setja þá á lífslokameðferð að ósekju.
Í kjölfar rannsóknar Landlæknis á vinnubrögðum Skúla var hann sviptur lækningaleyfi en hlaut síðan takmarkað lækningaleyfi frá Landlækni og hefur sinnt störfum á Landspítalanum undir eftirliti. Í desember tilkynnti Landspítalinn að hann myndi hér eftir ekki sinna samskiptum við sjúklinga þar til skýrari mynd væri komin á rannsóknina.
Í frétt RÚV segir að ábending hafi borist nýlega frá sjúklingi sem sagði að Skúli hefði sinnt sér og útskrifað sig af bráðalyflækningadeild Landspítalans. Í svari frá upplýsingafulltrúa Landspítalans við fyrirspurn RÚV kemur fram að Skúli hafi sinnt sjúklingum af og til í neyðartilvikum vegna mannesklu. Svarið er eftirfarandi:
„Í desember síðastliðinn var ákveðið að umræddur starfsmaður yrði færður til í starfi þar til skýrari myndi fengist af máli hans. Síðan þá hefur hann aðallega haft það verkefni að yfirfara gögn sjúklinga til stuðnings við störf annarra lækna á A2 og COVID göngudeild. Af og til koma hafa komið upp á spítalanum, vegna manneklu og undirmönnunar, neyðartilfelli þar sem umræddur starfsmaður sinnir sjúklingum á viðkomandi deildum en það er þá undir handleiðslu annars læknis enda er umræddur starfsmaður aðeins með takmarkað lækningaleyfi frá Landlækni sem háð er tilteknum skilyrðum. Afstaða spítalans í málinu frá því í desember er óbreytt.“