Jón Gísli Sigurðsson, sem er fæddur árið 2000, hefur verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás er hann réðst á fyrrverandi unnustu sína á Akureyri þann 25. desember síðastliðinn, kýldi hana margsinnis í líkama og höfuð, reif í hár hennar, sló höfði hennar ítrekað í gólf, borð og veggi, tók hana kyrkingartaki og herti að öndunarvegi hennar. Hann setti síðan púða yfir vit hennar og hótaði ítrekað að ráða henni bana.
Af þessu hlaut konan höfuðverk og svima ásamt eymslum og áverkum víðsvegar á líkamanum.
Jón Gísli er einnig ákærður fyrir að hafa brotið gegn nálgunarbanni með því að hafa hringt 61 sinnum í símanúmer ofannefndrar konu og sent 72 smáskilaboð í númerið. Þetta gerði hann í byrjun janúar á þessu ári en lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hafði úrskurðað hann í nálgunarbann daginn eftir árásina á konuna.
DV hefur ákæru héraðssaksóknara gegn manninum undir höndum. Jón Gísli er þar ákærður fyrir samtals átta brot en hin brotin varða akstur undir áhrifum fíkniefna og bílþjófnað. Er annar maður ákærður fyrir samverknað í einu brotanna.
Jón Gísli er með brotaferil að baki og var árið 2020 sakfelldur í Héraðsdómi Vesturlands fyrir bílþjófnað og umferðarlagabrot.
Aðalmeðferð í málinu verður fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 23. maí næstkomandi.