Fólk sem býr í hverfi 108 í Reykjavík vaknaði við það í nótt að tveir menn voru að gramsa í skápum á baðherberginu þeirra. Þegar lögreglan kom á vettvang voru innbrotsþjófarnir flúnir. Leitað var að þeim en þeir fundust ekki. Málið er í rannsókn hjá lögreglu en ekki er vitað hvort einhverju var stolið.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar kemur einnig fram að maður var handtekinn í miðbænum í nótt fyrir að ráðast á konu og gistir hann nú fangageymslu lögreglu.
Maður féll af hjóli í miðborginni og slasaðist svo illa að lögregla þurfti að aka honum á slysadeild til aðhlynningar.
Í nótt var tilkynnt um mann sem var að brjóta sér leið inn á kaffihús í miðborginni. Maðurinn komst ekki inn og urðu engar skemmdir á vettvangi.
Tilkynnt var um ölvaðan mann úti á miðri akbraut í hverfi 109. Kom í ljós að maðurinn hafði læst sig úti og aðstoðaði lögregla hann við að komast aftur inn til sín.