FH tók á móti Val í Kaplakrika í fyrsta leik 4. umferðar Bestu deildar karla í kvöld. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli.
Nokkuð jafnræði var á milli liðanna í byrjun leiks. Ólafur Guðmundsson kom heimamönnum í FH yfir með skalla þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum eftir stoðsendingu frá Guðmundi Kristjánssyni. Mikill hiti var í leiknum og gaf Vilhjálmur Alvar, dómari leiksins, fjögur gul spjöld í fyrri hálfleik. Bæði lið fengu ágætis færi undir lok fyrri hálfleiks en FH leiddi með einu marki þegar flautað var til hálfleiks.
FH-ingar áttu hættulegri færi í byrjun seinni hálfleiks en Matthías Vilhjálmsson og Steve Lennon áttu báðir dauðafæri. Valsmenn ógnuðu einnig og bættu í eftir því sem leið á hálfleikinn. Hólmar Örn Eyjólfsson jafnaði metin fyrir Val á 69. mínútu. Patrick átti þá skot sem fór í stöngina og féll boltinn fyrir Hólmar sem kláraði. Arnór Smárason kom Val yfir á 83. mínútu, Orri Hrafn átti skot sem endaði hjá Arnóri og hann skoraði örugglega.
Heimamenn gáfust ekki upp og jafnaði Matthías Vilhjálmsson metin sex mínútum síðar með skoti í fjærhornið. Það reyndist lokamark leiksins og 2-2 jafntefli niðurstaðan hér í kvöld.
Valur er enn á toppi deildarinnar með 10 stig en FH í 7. sæti með 4 stig.
FH 2 – 2 Valur
1-0 Ólafur Guðmundsson (´20)
1-1 Hólmar Örn Eyjólfsson (´69)
1-2 Arnór Smárason (´83)
2-2 Matthías Vilhjálmsson (´89)