fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
433Sport

Stjórnartíð Gunnars með Vestra í Lengjudeildinni hefst á morgun – ,,Þeir vita út í hvað þeir eru að fara“

Aron Guðmundsson
Föstudaginn 6. maí 2022 14:30

Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Vestra/ Mynd: Viðburðastofa Vestfjarða

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Heiðar Þorvaldsson, stýrir sínum fyrsta leik sem þjálfari Vestra í Lengjudeildinni á morgun þegar að Djúpmenn heimsækja Gróttu á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi. Gunnar tók við Vestra korteri í mót og segir liðið stefna á að gera betur í ár en í fyrra.

433.is/Fréttablaðið og sjónvarpsstöðin Hringbraut verða heimili Lengjudeildarinnar í sumar. Leikur Gróttu og Vestra verður sýndur í beinni sjónvarpsútsendingu á Hringbraut klukkan 14:00 á morgun.

,,Hér er mjög gott að vera. Þetta hefur komið mér skemmtilega á óvart og þá sérstaklega þegar sólin lætur sjá sig hérna, þá er þetta algjör paradís,“ segir Gunnar Heiðar í samtali við 433.is um fyrstu mánuði sína sem þjálfari Vestra en Gunnar býr í Bolungarvík um þessar mundir.

Hefur kynnst aðstöðuleysinu

Hann hefur fengið að kynnast aðstöðuleysi knattspyrnudeildar Vestra en ómögulegt er að æfa knattspyrnu á eðlilegan máta yfir vetrarmánuðina á Ísafirði.

,,Þetta er náttúrulega, ef ég á að segja alveg eins og er, nokkuð spes. Að aðstaðan skuli vera svona árið 2022 í bæjarfélagi eins og Ísafjarðarbæ.“

Gunnar Heiðar fundaði í gær, ásamt forsvarsmönnum Vestra, með Vöndu Sigurgeirsdóttur, formanni KSÍ og frambjóðendum til sveitastjórnarkosninga í Ísafjarðarbær þar sem aðstöðumál félagsins voru rædd.

,,Þar var farið vel yfir aðstöðuleysið hjá okkur í Vestra, við getum bara sagt það hreint út. Það sem maður dregur frá þeim fundi er að það er vilji til að gera betur. Svo ræðst framhaldið bara á úrslitum kosninganna en það er deginum ljósara að spýta þarf í lófa hvað þetta varðar og keyra þetta í gang.“

Svona leit heimavöllur Vestra út snemma í apríl Mynd: Vestri/Viðburðastofa Vestfjarða

Þurfti að aðlagast strax

Gunnar Heiðar var ráðinn þjálfari Vestra ,,korter í mót“ eins og hann segir sjálfur frá þegar að Jón Þór Hauksson yfirgaf Vestra og tók við ÍA. Gunnar Heiðar segir að þrátt fyrir að ekki hafi verið um ‚‘drauma scenario‘ að ræða hafi hlutirnir gengið vel í upphafi hans stjórnartíðar.

,,Ég hef verið það lengi í þessum bransa að ég veit alveg hversu óútreiknanlegur hann getur verið. Þessa fyrstu mánuði höfum við þurft að glíma við alls konar aðstæður, höfum ekki geta tekið æfingaleiki fyrir sunnan sökum þess að heiðin er lokuð en þetta byrjaði að rúlla almennilega hjá okkur þegar að við fórum til Spánar í æfingaferð í upphafi aprílmánaðar.“

Aðstæðurnar eins og þær hafa verið fyrir vestan gera það að verkum að Vestri er komið styttra í sínum undirbúningi en önnur lið.

,,Ég myndi segja að við værum einum til tveimur mánuðum á eftir öðrum liðum í þessari deild hvað undirbúning varðar en þetta er bara Vestri. Við gerum gott úr þessu og ég er mjög ánægður með strákana í liðinu hjá mér, þeir hafa tekið þetta á kassann og margir þessara leikmanna hafa verið hér í nokkur ár og vita hvernig hlutirnir ganga fyrir sig hérna.“

Jón Halfdán Pétursson þekkir alla króka og kima hjá Vestra og aðstoðar Gunnar Heiðar / Mynd: Viðburðastofa Vestfjarða

,,Við erum allir á sömu blaðsíðunni hvað verkefnið framundan varðar. Við gerum þetta almennilega og erum klárir í fyrsta leik, það er klárt mál.“

Vestra hefur tekist það sem hefur oft á tíðum vantað hjá liðinu, lykilmenn hafa skrifað undir nýja samninga og kjarninn í leikmannahópnum er sá sami og í fyrra. Auk þess hafa ný nöfn verið fengin til liðsins.

,,Það var eitt af því sem mér fannst heillandi við þetta starf, að tekist hefur að halda í sama kjarna leikmannahópsins frá því í fyrra.  Mér finnst það gríðarlega mikilvægt, sérstaklega hvað erlendu leikmennina varðar. Þeir vita út í hvað þeir eru að fara og þá er einnig hægt að byggja ofan á starfið sem búið er að byggja upp.“

,,Það er klárlega það sem ég er að reyna gera með liðið með minni nálgun. Ég reyni að þróa minn stíl inn í það sem búið var að gera hérna og um leið að reyna taka liðið upp á næsta stig.“

Gunnar segir að fyrstu viðbrögðin þessari nálgun hans á verkefnið hafi bara verið jákvæð af hálfu leikmanna og forráðamanna félagsins.

,,Þetta er hörku hópur sem ég er með í höndunum, það er hörkufólk sem starfar í kringum félagið með mikinn metnað og ég elska að vera í svoleiðis umhverfi.“

Vestri fékk spennandi miðjumann til liðs við sig rétt fyrir mót, Toby King/ Mynd: Viðburðastofa Vestfjarða

Setja spurningarmerki við Vestra

Spár sem hafa verið gerðar fyrir tímabilið ber ekki saman um það hvernig gengi Vestra mun vera í sumar. Litið er á liðið sem spurningarmerki en því var til að mynda á einhverjum tímapuntki spá í öll sæti frá því fyrsta niður í það tólfta af fyrirliðum og forráðamönnum liðanna í Lengjudeildinni.

,,Ég held það sé alveg eðlilegt að margir setji spurningarmerki við okkur. Við höfum í raun bara náð að æfa almennilega saman í mánuð allur hópurinn, nýr þjálfari með nýjar áherslur. Ég skil alveg að margir séu ekki vissir með okkur en það er náttúrulega bara undir okkur komið að afsanna það og sýna það strax fyrir hvað við stöndum. Við byrjum á því strax á morgun á móti Gróttu.“

,,Markmið mitt er að halda áfram því góða starfi sem hefur verið í gangi hjá Vestra, halda áfram að byggja ofan á það. Þú færð bara þetta klassíska svar, við viljum gera betur en í fyrra.“

Byrja á útileikjum

Vestri fær krefjandi byrjun á mótinu en liðið byrjar á þremur útileikjum í Lengjudeildinni áður en liðið leikur sinn fyrsta heimaleik á Ísafirði. Gunnar segir það mikilvægt fyrir Vestra, rétt eins og önnur lið, að byrja vel.

,,Þetta er oft þannig að eftir fyrstu fimm, sex leikina fer deildin að taka á sig ákveðna mynd. Ég ætla ekki að ljúga neinu að þér, ég veit voða lítið um önnur lið í þessari deild. Þetta er í fyrsta skipti sem ég tek þátt í Lengjudeildinni þannig að ég hef verið í því að afla mér upplýsinga um liðin í deildinni og mynda mér skoðun á þeim.“

,,Svo einbeiti ég mér að því hvað við getum gert á móti þessum liðum. Ég hugsa rosalega mikið um það hvað við viljum gera, stilla okkur saman og hámarka okkar getu.“

,,Ef við gerum það munum við eiga helvíti gott mót,“ sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Lengjudeildarliðs Vestra í samtali við 433.is

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Guardiola borðar og sefur illa: ,,Ég geri mikið af mistökum“

Guardiola borðar og sefur illa: ,,Ég geri mikið af mistökum“
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Van Dijk ræddi við leikmenn Fulham: ,,Hann var stressaður“

Van Dijk ræddi við leikmenn Fulham: ,,Hann var stressaður“
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Stórstjörnur mættu að horfa á lið í þriðju deild – Skemmti sér með stuðningsmönnum

Stórstjörnur mættu að horfa á lið í þriðju deild – Skemmti sér með stuðningsmönnum
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Liverpool verður án Slot gegn Tottenham

Liverpool verður án Slot gegn Tottenham
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Segir þetta hafa farið í gegnum hausinn á mönnum þegar Gylfi sneri aftur – „Ég held að þær hafi líka skipt hann miklu máli“

Segir þetta hafa farið í gegnum hausinn á mönnum þegar Gylfi sneri aftur – „Ég held að þær hafi líka skipt hann miklu máli“
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Mikael skoraði í mjög svekkjandi jafntefli gegn Juventus

Mikael skoraði í mjög svekkjandi jafntefli gegn Juventus
433Sport
Í gær

Tók virkilega óvenjulegri refsingu: Minnir á karakter úr Simpsons – ,,Ekki gaman fyrir þá að koma hingað heldur“

Tók virkilega óvenjulegri refsingu: Minnir á karakter úr Simpsons – ,,Ekki gaman fyrir þá að koma hingað heldur“
433Sport
Í gær

500 manns fengu óvæntan glaðning eftir langt ferðalag

500 manns fengu óvæntan glaðning eftir langt ferðalag