Ralf Rangnick ákvað að refsa Hannibal Mejbri ungum miðjumanni félagsins eftir að hann hafði sparkað í leikmenn Liverpool í leik liðanna á dögunum.
Hannibal Mejbri fékk tækifæri í nokkrar mínútur í tapi United gegn Liverpool á Anfield. Hannibal mætti æstur til leiks og sparkaði nokkrum sinnum í leikmenn Liverpool.
Gary Neville hrósaði Hannibal fyrir innkomuna og sagði að hann hefði sýnt stolt í þessum grannaslag en Rangnick var ekki á sama máli.
Rangnick kallaði Hannibal á fund sinn eftir leikinn og lét hann vita að svona framkoma innan vallar væri ekki honum að skapi.
Til að refsa Hannibal ákvað Rangnick að miðjumaðurinn ungi fengi ekki að æfa áfram með aðalliðinu og setti hann aftur í varaliðið.
Rangnick lætur af störfum á næstu vikum sem þjálfari liðsins og Erik ten Hag tekur við sem knattspyrnustjóri liðsins.