Leikkonan Amber Heard brotnaði niður í vitnastúku í gær þegar hún rifjaði upp meint atvik þegar Johnny Depp hótaði að skera andlit hennar með glerflösku, og setti hana síðan inn í leggöng hennar.
„Ég vissi ekki hvort flaskan sem hann setti inn í mig var brotin eða ekki,“ sagði hún á meðan hún hélt aftur tárunum. „Ég fann það ekki, ég gat ekki fundið neitt.“
Þann 11. apríl hófst aðalmeðferð í meiðyrðamáli leikarans Johnny Depp gegn fyrrverandi eiginkonu sinni, Amber Heard, vegna greinar sem hún ritaði árið 2018 þar sem hún sagðist vera þolandi heimilisofbeldis, en af greininni mátti álykta að þar væri verið að væna Depp um að vera ofbeldismaður. Hjónabandi þeirra lauk árið 2016 þegar Heard fór fram á skilnað og sótti samtímis um nálgunarbann gegn Depp.
Depp gaf sína aðilaskýrslu í lok apríl og sagði að það væri hann sem væri þolandi heimilisofbeldis, ekki Heard. Hann sagði að hún hefði beitt hann líkamlegu og andlegu ofbeldi og hann hefði oft þurft að læsa sig inni á baðherbergi til að komast undan henni.
Sjá einnig: Allt sem þú þarft að vita um mál Johnny Depp og Amber Heard
Atvikið á að hafa átt sér stað í mars 2015 í Ástralíu þar sem Depp var að leika í fimmtu „Pirates of the Caribbean“ myndinni.
Hún sagði að þau hefðu byrjað að rífast um áfengisdrykkju Depp og hann hefði verið að ögrað henni með áfengisflösku sem hann hélt á, sem datt á gólfið og brotnaði eftir að hún ætlaði að taka hana upp.
„Það fór virkilega í hann,“ sagði hún við aðilaskýrslutöku í gær. Hún sagði að hann hefði annað hvort slegið hana eða kýlt hana svo hún endaði á gólfinu.
„Ég stóð upp og hann var með flösku í hendinni. Hann kastaði henni í mig […] Ég veit ekki hversu langur tími leið en á einhverjum tímapunkti var hann með brotna flösku upp við hálsinni minn og hann sagðist ætla að skera andlit mitt.“
Leikkonan sagði að Depp hefði einnig rifið náttkjól hennar og kýlt vegginn við hliðina á höfði hennar.
„Ég var nakin og rann til á flísunum. Hann var öskrandi á mig og sagði að ég væri búin að eyðileggja líf hans.“
„Ég fokking hata þig, þú eyðilagðir fokking líf mitt“ sagði Heard að leikarinn hefði öskrað á meðan hann braut síma hennar.
„Ég var að horfa í augu hans en sá hann ekki lengur,“ sagði Heard með ekka. „Þetta var ekki hann, þetta var svart. Ég hef aldrei verið svona hrædd á allri minni ævi.“
Heard átti erfitt með að tala þegar hún var að segja frá þessu og baðst afsökunar á meðan hún reyndi að ná andanum.
Hún sagði að Depp hafi þrýst flöskunni upp að lífbeini hennar og hótað að drepa hana. „Hann sagði að hann ætlaði að „fokking drepa mig.“ „Ég fokking drep þig,“ hann sagði það aftur og aftur við mig,“ sagði hún.
Lögfræðingurinn hennar bað hana um að útskýra nánar hvort Depp hefði sett flöskuna inn í leggöng hennar.
„Ég trúi ekki að ég þurfi að gera þetta,“ sagði leikkonan í miklu uppnámi, lögfræðingur hennar sagði þá: „Mér þykir þetta leitt.“
„Johnny var með flöskuna inn í mér og var að troða henni inn í mig aftur og aftur,“ sagði hún. Aðspurð hvort henni hefði blætt úr leggöngunum svaraði hún játandi.
Meint atvik á að hafa gerst í sama rifrildi og þegar Depp þurfti að leita læknisaðstoðar eftir að það skarst framan af fingri hans.
Þegar Depp gaf aðilaskýrslu fyrir dómi í lok apríl hélt hann því fram að hann hefði tapað fingrinum þegar Heard henti í hann vodkaflösku, en Heard tók fyrir það.
Einkalæknir Depp greindi frá því fyrir dómi að hann hafi komið á vettvang og þar hafi verið glerbrot og mikið blóð. Fyrrum einkahjúkrunfræðingur leikarans bar einnig vitni og greindi frá því hvernig hún hafi aðstoðað við leitina að afskorna fingrinum. Hún sagði heimilið hafa verið í rúst og blóði hafi verið makað út um allt.
Sjá einnig: Amber Heard lýsir fyrsta skiptinu sem hún segir Johnny Depp hafa beitt sig ofbeldi
Í gær var Heard sýnt myndir af vettvangi og á einni myndinni mátti sjá tvær áfengisflöskur. Hún sagðist kannast við aðra þeirra frá meintri árás.
Leikkonan sagði að hún hefði tekið svefntöflur til að sofna eftir árásina og þegar hún vaknaði var þáverandi eiginmaður hennar slasaður.
„Ég fattaði að á hann vantaði fingur,“ sagði hún. Hún sagði að hann hefði skrifað mörg skilaboð um herbergið með blóðinu sínu. „Hann skrifaði aftan á koddann með blóði,“ sagði hún og sagði einnig að hann hefði skrifað á speglana, veggina og lampaskerm.
Hægt er að horfa á það helsta úr skýrslutökunni í gær hér að neðan.