Kabaeva, sem er fyrrum fimleikakona, er þingmaður á rússneska þinginu en talið er að hún hafi dvalið í Sviss frá því í febrúar ásamt börnum sínum. Það hefur vakið furðu margra að hún hafi ekki verið beitt refsiaðgerðum fram að þessu.
Nafn Kabaeva er á nýjum lista ESB yfir Rússa sem sambandið vill bæta á refsiaðgerðalista sína.
Auk Kabaeva hyggst ESB beita æðsta mann rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar refsiaðgerðum en hann heitir Kirill.
Verða eignir þeirra frystar og ferðabann sett á þau þannig að þau geta ekki ferðast til ESB-ríkja. Kirill er náinn bandamaður Pútíns og hefur lagt blessun sína yfir innrásina í Úkraínu.
The Guardian segir að auk nafna þeirra tveggja séu nöfn um tveggja tuga Rússa til viðbótar á listanum sem ESB vinnur nú með en fyrir eru nú rúmlega 1.000 Rússar á refsiaðgerðalista sambandsins.