Hann var umsvifalaust handtekinn, sakaður um að ætla að smygla forngripum úr landi.
The Independent segir að hann muni koma fyrir rétt í næstu viku. Ef hann verður fundinn sekur á hann þyngstu mögulegu refsingu yfir höfði sér: Dauðadóm.
Fjölskylda hans hefur hafið undirskriftasöfnun á netinu til að fá hann heim. Í henni segir meðal annars að hann hafi tekið þessi hluti þar sem þeir hafi legið á almannafæri, engin skilti, þar sem varað var við að fjarlægja þá, hafi verið nærri þeim og enginn gætt þeirra. Einnig hafi fararstjórarnir tekið svipuð brot sem minjagripi í Eridu. Þátttakendum í ferðinni hafi verið sagt að þetta væri ekkert vandamál því þessi brot hefðu enga sögulega þýðingu og væru verðlaus. „Nú er einn fararstjóranna, annar breskur ríkisborgari, látinn eftir að hafa fengið hjartaáfall á meðan hann var í gæsluvarðhaldi hjá lögreglunni í Bagdad og faðir okkar bíður nú örlaga sinna,“ segir á síðunni.
Á annað hundrað þúsund manns hafa skrifað undir á síðunni.
Fjölskyldan segist ekki fá neina aðstoð frá breskum yfirvöldum og að ekki sé hægt að reikna með aðstoð ef fólk lendi í vandræðum.