DV greindi frá því í dag að kona nokkur hafi um sumarið í fyrra gert tilraun til að kæra tónlistarmanninn Ingólf Þórarinsson, eða Ingó Veðurguð eins og hann er gjarnan kallaður, fyrir líkamsárás. Umræða um mál Ingólfs hefur verið mikið undanfarna daga eða frá því aðalmeðferð í meiðyrðamáli hans gegn Sindra Þór Sigríðarsyni hófst síðastliðinn mánudag.
Konan sagði í samtali við DV að hún hafi tilkynnt málið til lögreglu sumarið 2021 en að meint árás hafi átti sér stað árið 2017. Málið var sagt fyrnt og ekki tekið til rannsóknar. Sigrún Jóhannsdóttir lögmaður staðfesti í samtali við DV að hún hefur séð gögn málsins, meðal annars áverkamyndir sem konan tók sjálf. Að sögn Sigrúnar sýna þær myndir áverka í andliti, það er mar á kinnbeini og auga. Konan ræddi málið við vinkonu sína árið 2019 og sendi henni myndirnar. Var það tveimur árum áður en neikvæð umræða um Ingó hófst opinberlega.
Konan sagði í samtali við DV að hún treysti sér ekki til að koma fram undir nafni né bera vitni í meiðyrðamálum Ingós vegna neikvæðrar umræðu um þolendur. Tekið var fram í frétt DV að þrátt fyrir að konan hafi tilkynnt atvikið til lögreglu og sóst eftir því að kæra vegna þess þá virðist eiginleg kæra ekki vera til staðar. Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Ingólfs, staðfesti þá í fréttinni engin kæra gegn honum sé til.
Ingólfur hefur nú tjáð sig um þessa frétt DV og er hann ósáttur með nafnleysi þeirra sem saka hann um ofbeldi. „Ég fer að verða ansi þreklaus í þessu öllu og enn og aftur hef ég enga leið til að verja mig þar sem allt er nafnlaust,“ segir hann í færslu sem hann birtir á Facebook-síðu sinni.
„Að ég fari svo að kýla konu og hrækja framan í er í besta falli galið en þetta synir hversu langt ákveðnir hópar eru til í að ganga.“
Með færslunni birtir Ingólfur skjáskot af tölvupósti frá Auði Björgu. Í tölvupóstinum kemur það sama fram og í frétt DV um málið, það er að engin kæra sé til er varðar ofbeldi eða kynferðisbrot
„Yfirlit frá ríkislögreglustjóra. Engar kærur nema er varða umferðalög og reyndar kæra vegna húsbrots sem sögð er að hafi farið fyrir héraðsdóm,“ segir Auður í póstinum. „Engin kæra verið lögð fram er varðar ofbeldi eða kynferðisbrot. Punktur,“ segir hún svo.
„Hér kemur skýrt fram að ég hef ALDREI verið ákærður fyrir ofbeldisbrot eða kynferðisbrot enda aldrei gert slíkt,“ segir Ingólfur í færslunni og vísar þá í tölvupóstinn frá Auði. „Húsbrotið eru mistök þegar ég fór í sund eftir lokun í Vestmannaeyjum.“
Ingólfur furðar sig á því að DV hafi birt fréttina í dag en hann gerir þá ráð fyrir því að það sé vegna þess að DV birti fyrst nafnlausu sögurnar 20 þar sem lýst er meintri ofbeldishegðun Ingólfs. „Ég mun berjast þar til ég dey að hafa aldrei nauðgað, riðið börnum eða lamið konur. Það skal ég sverja upp á konuna mína, Pinna og Gumma bróður þau sem ég elska mest,“ segir Ingólfur svo í færslunni.
„Ég hvet svo fólk til að fara að blanda sér aðeins í þessi mál, lofa því að annars geta allir lent í svona og ef þú beygir þig ekki er logið. Við hvað eru allir annars hræddir? Þangað til venjulegt fólk stoppar þessa bilun tekur þetta yfir allt samfélagið og þetta er orðið vopn til að drepa hvern sem er.“
Undir lokin segist Ingólfur vera saklaus og að hann muni ekki hætta að berjast. „Ég er saklaus og mun berjast þó ég standi einn að berjast. Þetta fólk svífst einskis. Mig langar mest af öllu að reyna að halda áfram og fá frið með konunni minni og verðandi barni en ég verð að berjast fyrir því að fá eitthvað réttlæti við því sem hefur verið sagt.“