Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ 2. maí var kveðinn upp úrskurður í máli ÍR gegn Víking Ólafsvík. Kærandi taldi að Víkingur Ó. hefði teflt fram ólöglegum leikmanni í viðureign liðanna í Lengjubikarnum þann 26. mars.
Óumdeilt var að mati nefndarinnar að sá leikmaður sem tók þátt í umræddum leik fyrir hönd Víkings Ó. var ekki hlutgengur til þátttöku í þeim leik. Þó ekki hafi verið getið um nafn leikmannsins í kæru eða greinargerð kærða þá liggur fyrir skýr viðurkenning af hálfu kærða að umræddur leikmaður hafi ekki verið kominn með leikheimild í umræddum leik og verður við það miðað. Var því lið Víkings Ó. ólöglega skipað til leiks og skal samkvæmt grein 10.1 sæta 60.000 kr. sekt og skal Víkingur Ó. talinn hafa tapað leiknum með markatölunni 0-3.
„Málið varðar þá háttsemi Víkings Ólafsvíkur að nota leikmann í leik liðsins gegn ÍR í Lengjubikarkeppni KSÍ þann 26. mars 2022, sem var á þeim tíma ekki með leikheimild með liðinu. Þá varðar málið jafnframt það að Víkingur Ólafsvík hafi ranglega falsað nafn þátttakanda í leiknum með því að ská Kristófer Daði Kristjánsson á leikskýrslu með númerið 11 en í hans stað lék leikmaður er hafði ekki fengið leikheimild,“ segir í dómnum.
Í niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar segir frá því að af svari Víkings Ó. verði ekki annað séð en að félagið gangist við báðum brotum. Í samræmi við grein 36.3 í reglugerð um knattspyrnumót var Víking Ó. gert að sæta sekt að fjárhæð kr. 100.000 vegna brotsins. Samkvæmt grein 36.4 í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót skal þjálfari eða forystumaður sem stuðlar að því að nafn eða kennitala er fölsuð á leikskýrslu sæta leikbanni eða banni frá stjórnunarstörfum í knattspyrnu í allt að eitt ár.
Í dómnum segir svo. „Úrslitum í leik Víkings Ólafsvíkur og ÍR í B deild í Lengjubikarkeppni karla, sem fram fór þann 26. mars 2022, er breytt og ÍR úrskurðaður 0-3 sigur í leiknum. Víkingur Ólafsvík skal sæta sekt samanlagt að fjárhæð kr. 160.000 til KSÍ. Kristján Björn Ríkharðsson skal sæta leikbanni í keppnum á vegum KSÍ í sex mánuði.“