Íslensk kona, sem býr í Michigan í Bandaríkjunum, hefur verið ákærð fyrir umferðarlagabrot sem leiddi til dauðsfalls („moving violation resulting in death“) vegna umferðarslyss sem varð í þorpinu Berrien Springs í Michigan þann 30. janúar síðastliðinn.
Konan heitir Sarah Helena Wilhelmsen og er 35 ára gömul. Samkvæmt lýsingu frænda hennar, Þrastar Þórðarsonar, var hún að hægja ferðina er nágranni hennar gekk í veg fyrir hana og varð fyrir bílnum. Nágranninn lést á sjúkrahúsi tveimur vikum síðar.
Sarah á yfir höfði sér allt að eins árs fangelsi og háar fjársektir. Tveimur dögum eftir slysið gekkst hún undir erfiða skurðaðgerð vegna krabbameins.
Sarah og aðstandendur hennar telja að hún hafi ekki gerst sek um afbrot en kerfið er á öðru máli. Handtökuskipun var gefin út á Söru en frændi hennar, David, forðaði henni frá fangelsi með því að greiða fyrir hana tryggingu. Sarah á að mæta fyrir dómara þann 13. maí næskomandi.
Þröstur Þórðarson hefur gengist fyrir fjársöfnun til handa frænku sinn á síðunni gofundme.com. Nú þegar hefur nokkurt fé safnast en betur má ef duga skal því til að fá þjónustu góðs lögmanns verður Sarah að greiða fyrirfram um 10 þúsund dollara, eða andvirði rúmlega 1,3 milljóna íslenskra króna.
Nánar má lesa um málið hér og á sama stað er hægt að leggja Söru lið.