Vandræði eru að komast í söluna á Chelsea nú þegar Roman Abramovich eigandi félagsins virðist vera að svíkja loforð sitt.
Roman hefur í gegnum árið lánað Chelsea 1,6 milljarð punda. Þegar eigur hans í Bretlandi voru frystar sagðist eigandinn ekki ætla að fara fram á að lánið yrði endurgreitt.
Nú segir Times frá því að Roman vilji fá fjárhæðina endurgreidda en nokkrir aðilar hafa verið að reyna að kaupa Chelsea síðustu vikur.
Ríkisstjórn Boris Johnson mun reyna að koma í veg fyrir að Roman fái fjármunina í sína hendur en eigur hans voru frystar vegna innrásar Rússlands í Úkraínu, Roman er sagður náinn félagi Vladimir Putin forseta Rússlands.
Times hefur heimildarmann innan raða aðila sem reynir að kaupa Chelsea og samtalið um að endurgreiða lánið fór af stað í síðustu viku. Gæti þetta haft veruleg áhrif á hugsanlega kaupendur félagsins.