Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Hefur blaðið eftir Halldóri að staðan núna sé svipuð og var rétt áður en gosið hófst á síðasta ári.
Mælingar gefa til kynna að kvikusöfnun eigi sér stað á víðfeðmu svæði austan við Fagradalsfjall og sé kvikan á 16 km dýpi. Haft er eftir Halldóri að ótrúlegt magn kviku geti safnast fyrir á þessum stað, sem er við mót möttuls og jarðskorpu, án þess að hún leiti upp á yfirborðið.
Þegar saga mælinga jarðskorpuhreyfinga á Reykjanesi er skoðuð sjást engin merki um kvikusöfnun á svæðinu fyrir síðasta gos. Sagði Halldór að það gefi til kynna að kvikan hafi verið til staðar og yfirstandandi kvikusöfnun sé hugsanlega viðbragð við rými sem myndaðist í gosinu. Í þeim skilningi séu ákveðnar líkur á að það gjósi á nýjan leik.