Segir miðillinn að í fyrstu atkvæðagreiðslu réttarins hafi hann samþykkt að hvert og eitt ríki landsins geti sett eigin lög sem takmarka réttinn til þungunarrofs. Um er að ræða frumatkvæðagreiðslu dómaranna og byggir skjalið á samþykkt meirihlutans. Það er í raun uppkast að niðurstöðu réttarins í málinu. Færir meirihlutinn þar rök fyrir því að afnema eigi réttinn til þungunarrofs.
CNN segir að skjalið sé ófalsað.
Politico bendir á að ákvörðunin sé ekki endanleg og að dómararnir geti skipt um skoðun þar til skömmu áður en rétturinn skilar lokaniðurstöðu sinni. Slíkt hefur gerst í gegnum tíðina. Segir miðillinn að rétturinn muni birta endanlega niðurstöðu sína innan tveggja mánaða.
Skjalið er frá 10. febrúar og ekki er útilokað að breytingar hafi verið gerðar á því síðan að sögn Politico.
Ef það sem kemur fram í skjalinu verður niðurstaða Hæstaréttar hefur það í för með sér mikla breytingu á réttindum kvenna því eins og áður sagði mun hún afnema niðurstöðu réttarins frá 1973 í máli Roe vs Wade sem tryggði konum rétt til þungunarrofs.
Níu dómarar sitja í Hæstarétti. Sex þeirra voru tilnefndir af forsetum úr röðum Repúblikana og þrír af forsetum úr röðum Demókrata. Þetta þýðir að íhaldssamir dómarar eru í meirihluta í réttinum.
Politico hefur eftir heimildarmanni, sem þekkir til atkvæðagreiðslu réttarins, að fimm af íhaldssömu dómurunum hafi greitt atkvæði með að breyta niðurstöðu Roe vs Wade. John Roberts, sem er forseti réttarins, greiddi ekki atkvæði með þessari niðurstöðu en hann kemur einnig úr röðum íhaldssamra dómara.
Mörg ríki Bandaríkjanna hafa á undanförnum árum samþykkt lög sem þrengja að réttindum kvenna til þungunarrofs. Þeirra á meðal eru Oklahoma, Texas og Mississippi sem hafa sett lög sem heimila aðeins þungunarrof mjög snemma á meðgöngunni.