fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Daniel var feitasti maður Bretlands – Heillaði konurnar með karlmannlegri ásýnd sinni

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Mánudaginn 2. maí 2022 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1806 birtist auglýsing í blaði í Bretlandi þar sem fólki var boðið að koma og sjá ,,feitasta mann Bretlands”, auðvitað gegn gjaldi. Maðurinn sem um ræddi hét Daniel Lambert og vó hann um 350 kíló þegar að auglýsingin birtist. Á öldum áður voru alls kyns sýningar á fólki, sem á einhvern hátt var öðruvísi en meðalmaðurinn, vinsælar og almenningur reiðubúinn að greiða fyrir að góna á risa, samvaxna tvíbura og skeggjaðar konur.

Fjöldi útsjónarsamra aðila græddi stórfé á slíkum sýningum og er P.T. Barnum sennilega þeirra þekktastur.

En Daniel Lambert var ekki á því að láta aðra þéna á útliti sínu. Ef einhver ætti að græða á því skyldi það vera hann sjálfur. 

Kraftakarl

Daniel Lambert fæddist í Leicester i Englandi þann 13. mars 1770. Hann var hraustur og sterkur strákur, svo sterkur reyndar að hreysti hans varð snemma mál manna. Sem dæmi má nefna að einn daginn þegar að Daniel var unglingur kom sýning á dansandi björnum til Leicester og réðst einn björninn á hund Daniels. Daniel snerist strax til varnar og náði að berja björninn frá hundinum. Hann naut þess að vera úti í náttúrunni við veiðar, kenndi sund og stundaði kappreiðar af krafti.

En að því kom að Daniel óx úr grasi og þurfti að fara út á vinnumarkaðinn og þegar að faðir hans hætti störfum sem fangavörður tók Daniel við stöðu hans. Og eftir því sem Daniel sat lengur í fangelsinu, því breiðari varð hann um sig. Árið 1793 var Daniel kominn upp í 220 kíló en var enn nautsterkur og sagt að hann gæti synt yfir á með 250 kíló af timbri og tvo menn á bakinu.

Daniel hélt aftur á móti áfram að fitna og varð smám saman það þekktur að gestir í Leicester gerðu sér ferð í fangelsið til að berja hann augum. Sumir börðu reyndar að dyrum heima hjá honum en Daniel rak þá í burt með háði og spotti. 

Sýningar hefjast

Upp úr aldamótunum 1800 stóð Daniel frammi fyrir því að verða atvinnulaus þar sem loka átti fangelsinu. Þegar sparifé hans var á þrotum greip hann því til þess ráðs að sýna sjálfan sig enda hafði það sýnt sig og sannað að fólk lagði töluvert á sig til að sjá hann.

Samtímateikning úr breskum fjölmiðlum.

Um vorið 1806 steig Daniel upp í sérsmíðaðan vagn og hélt áleiðis til London. Hann var þá orðinn 350 kíló og feitasti maður sem vitað var um í heiminum. Þegar að til London var komið setti hann auglýsingu í blöð sem hljómaði svo:

,,Sýning – Herra Daniel Lambert frá Leicester er mesta furðuverk í heimi, 36 ára að aldri og 350 kíló. Herra Lambert tekur á móti gestum á heimili sínu No. 53, Piccadilly, á móti St. James’s kirkju, frá klukkan 12 til 5. — Aðgangseyrir 1 skildingur.”

Hundruðir manna og kvenna fóru að sjá furðuveruna Daniel, sem hélt því fram að hann borðaði aðeins í hófi og snerti aldrei áfengi. Það sem flestum kom aftur á móti á óvart var hversu skemmtilegur og viðræðugóður Daniel. Hafði hann til að mynda mikið vit á veiðum og hundaræktun sem hann gat spjallað um endalaust. 

Stjarna

Blaðamaður frá The Times heimsótti Daniel og var uppnuminn yfir þeim fjölda gesta af hástétt sem borguðu skilding fyrir félagsskap Daniels. 

Blaðamenn tóku eftir kvenhylli Daniels.

„Það að hitta mann af þessari óvenjulegu stærð, mann sem býr yfir mikilli þekkingu, siðferðisvitund og er í ofanálag einstakleg vingjarnlegur og samræðugóður og fer fram úr öllum væntingum, jafnvel þótt að þær hafi verið miklar.” Blaðamaðurinn tók enn fremur fram að konur meðal gestanna væru langtum fleiri karlmönnum og lýstu þær ítrekað yfir hrifningu á ,,karlmannlegi ásýnd hans”. Ekki fer þó neinum sögum af ástarlífi Daniels. 

Daniel varð fljótlega stjarna í Lundúnum og enginn maður með mönnum sem ekki hafði heimsótt feita manninn. Honum var jafnvel boðið að koma til hirðarinnar að hitta Georg III Bretakonung. En ekki voru allir gestirnir jafn kurteisir og krafðist einn þeirra að vita hvað Daniel borgaði fyrir svo stóran jakka. Daniel svaraði manninum engu en gesturinn varð aftur á móti æstari og sagðist hafa borgað skilding, sem örugglega færi upp í kaup á jökkum, og ætti því rétt á að vera svarað. Daniel leit á manninn og svaraði hinn rólegsti að ef hann vissi hvaða partur af jakka sínum væri keyptur fyrir hans skilding, myndi hann með ánægju klippa hann af til endurgreiðslu. Smám saman lærði fólk að það borgaði sig ekki að móðga Daniel sem var eldsnöggur til svara og dró alla dóna sundur og saman í hæðni.

Teikningarnar sem fundust af Daniel í fyrra.

Þjóðsagan Daniel

Að nokkrum mánuðum liðnum var Daniel orðinn vellauðugur og sneri heim til Leicester þar sem honum var fagnað gríðarlega. En eftirspurnin eftir Daniel minnkaði ekkert og brá Daniel á það ráð að fara í sýningarferð um England þar sem þúsundir manna greiddu með gleði fyrir félagsskap hans enda var fyndni hans, greind og orðheppni jafnvel umtalaðri en stærð hans. 

En Bretland átti því miður ekki eftir að njóta Daniel Lambert lengi. Í júní 1809 var hann staddur í Stamford til að sjá kappreiðar þegar að hann lést skyndilega við rakstur á hótelherbergi sínu. Hann var 39 ára gamall.

Grafreitur Daniel Lambert

Ekki reyndist unnt að koma líki Daniels út af hótelherberginu sökum stærðar hans og var brugðið á það ráð að brjóta niður vegg til að koma honum út og í kassa sem tjaslað hafði verið saman í flýti og var stærri að ummáli en hestvagn. Það tók tuttugu karlmenn að bera kassann í kirkjugarðinn þar sem fjöldi fólks kom saman til að syrgja fráfall hans. Bæjarbúar söfnuðu á örskotsstund fyrir útfararkostnaði og legsteini og var samið ljóð honum til heiðurs sem grafið var á legstein hans. 

Daniel Lambert varð eins konar þjóðsaga, ekki síst í Leicester. Fjöldi pöbba hafa verið skýrðir í höfuð hans og stytta í hans mynd var reist. Í fyrra fundust tvær teikningar af Daniel og seldust þær dýrum dómum á uppboði. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Í gær

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“