Bjarki Már Magnússon, sem var dæmdur í átta ára fangelsi fyrir kynferðis- og ofbeldisbrot gegn sambýliskonu sinni í Hæstarétti árið 2010, hefur sagt sig frá sjálfboðastörfum fyrir hjálparsamtökin Flottafólk sem hafa verið flóttafólki frá Úkraínu til aðstoðar í athvarfi í Guðrúnartúni. Samkvæmt dómsorði áttu brot hans sér ekki hliðstæðu í íslensku réttarkerfi. Meðal annars neyddi hann sambýliskonu sína með hótunum og beinu ofbeldi til kynmaka við ellefu aðra karlmenn.
Bjarki var meðal þeirra sem tóku á móti Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, sem heimsótti flóttafólkið á síðasta vetrardag, þann 20. apríl.
Valgeir Magnússon, stjórnarformaður Pipar\TBWA, hefur síðustu vikur boðið fram matsal auglýsingastofunnar í Guðrúnartúni fyrir félagsstarf og aðstoð við flóttafólk, og hefur hann einnig verið í forsvari fyrir hjálparsamtökin Flottafólk sem þó á eftir að stofna formlega. Til stóð að Bjarki myndi taka sæti í stjórn félagsins.
Hundruð mættu á samkomuna á síðasta vetrardag og birti Valgeir myndir frá viðburðinum á LinkedIn en á einni þeirra er Bjarki við hlið Guðna Th. á hópmynd. DV fékk í framhaldinu ábendingu frá fólki sem hafði áhyggjur af því að maður sem hefði brotið af sér á þann hátt sem Bjarki gerði, þó hann hefði afplánað refsingu sína, ætti ekki heima í starfi með fólki í viðkvæmri stöðu.
Þegar DV hafði samband við Valgeir sagðist hann sömuleiðis hafa fengið ábendingar í kjölfar myndbirtingarinnar en fyrir það hafði hann ekki vitneskju um fyrri brot Bjarka.
„Eftir að ég birti þessa mynd fékk ég strax ábendingar og komst þá að hans bakgrunni. Ég átti við hann samtal og hann sagði sig frá samtökunum og öllu hjálparstarfinu í kjölfarið,“ segir Valgeir. „Ég tók á þessu máli um leið. Það passaði ekki að hann væri að vinna þetta starf. Hann sýndi þessu mikinn skilning og er ekki lengur hluti af þessum samtökum.“ Í framhaldinu hafi hann síðan upplýst aðra sem stýra starfinu um dóminn yfir Bjarka.
Valgeir tekur fram að hann hafi ekki átt mikil samskipti við Bjarka sem hafi aðallega verið að sinna lögfræðiráðgjöf. Hann telur að Bjarki hafi boðið fram krafta sína vegna tengingar við Úkraínu en hann eigi konu þaðan. „Ég held að það hafi bara verið hjálpsemi sem vakti fyrir honum en ég gat ekki tekið sjensinn. Hann skildi það alveg,“ segir hann.
„Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að hann hefur gerst sekur um fjölmargar líkamsárásir og sérlega gróf og alvarleg kynferðisbrot gegn þáverandi sambúðarkonu sinni. Brotin stóðu yfir um árabil og afleiðingar þeirra fyrir hana eru alvarlegar, eins og nánar greinir í héraðsdómi.“
„Ákærði neyddi sambúðarkonu sína með hótunum og beinu ofbeldi til kynmaka við aðra karla, ljósmyndaði athæfi þeirra og tók upp á myndband. Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að ekkert geti skýrt þessa háttsemi ákærða annað en það að þessi kynmök annarra hafi haft kynferðislegt gildi fyrir hann og komið í staðinn fyrir eða bætt upp hefðbundið samræði, jafnvel þótt hann hafi sjálfur iðulega tekið þátt í þessum athöfnum.“
„Meðal annars liggur fyrir sú niðurstaða þeirra að ákærði sé afar skapríkur og stjórnsamur, en A aftur á móti óvenju undirgefin og með lágt sjálfsmat. Þetta hafi meðal annars birst í því að hún hafi verið reiðubúin til að leggja allt í sölurnar fyrir hann. Héraðsdómur mat framburð A trúverðugan og stöðugan og að innbyrðis samræmi hafi verið í frásögn hennar frá upphafi, auk þess sem vísað var til þess að ekki yrði séð að hún hafi reynt að gera hlut ákærða verri en efni stæðu til. Frásögn ákærða var jafnframt talin að ýmsu leyti ótrúverðug. Fallist verður á með héraðsdómi að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að sú ógn, sem A stóð af ákærða og líkamlegt ofbeldi hans, hafi legið því til grundvallar að hún hafi tekið þátt í þeim kynlífsathöfnum með öðrum körlum, sem greinir í ákæru. Verður því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sannað sé að ákærði hafi neytt A með hótunum um líkamlegt ofbeldi til þeirra athafna.“
„Í hinum áfrýjaða dómi er ítarlega greint frá lýsingum A á því hvernig sambúð hennar og ákærða hafi breyst fljótlega eftir að hún hófst og ofbeldi hans og harka gagnvart henni aukist stig af stigi og einkennt loks allt samband þeirra. Samhliða hafi komið í ljós kynlífsórar hans, sem hafi lýst sér í hugmyndum og síðan kröfum um að fleiri karlar skyldu kallaðir til þátttöku í kynlífi þeirra. Hún kvaðst í byrjun hafa átt erfitt með að trúa að alvara byggi að baki þessu af hálfu ákærða, en látið svo nauðug undan til að þóknast honum. Síðan hafi komið í ljós, og endanlega í mars 2006, að skýr tengsl hafi verið á milli líkamlegs ofbeldis ákærða við hana og óvilja hennar til að taka þátt í athöfnum af þessum toga. Óttinn við enn meira ofbeldi hafi ráðið því að hún hafi iðulega látið undan kröfum hans um kynlíf með þátttöku annarra, enda hafi hún aðeins átt tveggja kosta völ, annaðhvort að samþykkja þetta eða sæta ella ofbeldi.“
Fyrrverandi sambýliskona Bjarka, sem hann var dæmdur fyrir að brjóta gegn, gaf DV leyfi til að nafnbirta hann sem geranda hennar nokkru eftir að dómur héraðsdóms féll 2009. Bjarki hafði þá áfrýjað til Hæstaréttar og vildi hún að nafn hans birtist til að aðrar konur gætu passað sig á honum. Hann hafi komið einstaklega vel fyrir og hrifið alla upp úr skónum í kring um hana.
Í grein DV frá ágúst 2009 kemur fram að mestan tímann sem þau voru saman bjuggu þau í Danmörku, Svíþjóð og Noregi, og áttu flest brotin sér stað þar. Hann var á sínum tíma í starfsnámi hjá sendiskrifstofu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og Noregi í Osló, auk þess sem hann starfað hjá Bandalagi háskólamanna á meðan hann nam stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Bjarki hefur alltaf verið virkur í félagslífi og á námsárunum sat hann meðal annars í stjórn Politicu, félags stjórnmálafræðinema við HÍ. Um tíma sat hann einnig í stjórn Félags ábyrgra feðra. Sem stjórnarmaður þar ritaði hann greinar um börn og fjölskyldulíf, og fékk birtar í fjölmiðlum. Þegar þau bjuggu í Svíþjóð fékk hann starf sem fréttaritari Bylgjunnar og Stöðvar 2 þar í landi en entist stutt í því starfi. Bjarki var þá í vinfengi við fjölda stjórnmálamanna og fjölmiðlafólks, og þegar þau bjuggu úti voru þau fastagestir í veislum á vegum íslensku ráðuneytanna.
Í samtali við DV eftir að dómur féll í Hæstarétti 2010 sagði Bjarki: „Þessi dómur eru svakalegir hnekkir fyrir mig. Stimpill sem kynferðisbrotamaður er svakalegur enda að ósekju. Ég trúi því bara ekki að Hæstiréttur hafi ekki litið betur til sönnunarfærslu í málinu. Þetta mun hafa veruleg áhrif á mína framtíð og hefur þegar gert. Ég er þokkalega menntaður og með svona dóm á bakinu er engin spurning að það mun hafa áhrif.“
Og: „Ég er ekki kynferðisbrotamaður og ég er ekki þetta skrímsli sem verið er að lýsa.“