Þetta kemur fram í pistil Andrésar Magnússonar, Baksvið, í Morgunblaðinu í dag. Þar segir hann að innan VG og Framsóknar hafi verið rætt um að núverandi samstarfi sé sjálfhætt ef niðurstaða ríkisendurskoðanda verði Bjarna Benediktssyni óhagstæð.
Í framhaldi gæti minnihlutastjórn VG og Framsóknar tekið við fram á vor og notið hlutleysis Samfylkingarinnar og Pírata fram að þingkosningum sem yrðu þá í vor.
Í grein sinni bendir hann á að Bankasýslumálið, sem snýst um nýlega sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, sé hitamálið á Alþingi þessa dagana. Segir hann að stjórnarandstöðunni hafi mistekist að þjarma að ríkisstjórninni og hafi misst af fágætu tækifæri til að koma sameinuð fram og þjarma að ríkisstjórninni um kjarna málsins. Þess í stað hafi stjórnarandstaðan gripið til hefðbundins málþófs en það hafi engan veginn átt við í gær. Með þessu hafi stjórnarandstöðunni mistekist að fylkja þeim 83% þjóðarinnar, sem eru ósátt við söluna á hlutnum í Íslandsbanka, að baki sér. Slíkt hljóti að teljast nokkurt afrek.