Rússar hafa glímt við stór vandamál varðandi birgðaflutninga, hermennirnir eru ekki nægilega vel þjálfaðir, stórskotaliðið hefur ekki staðið sig vel og baráttuandi hermannanna er lítill.
Samkvæmt því sem Institute for the Study of War segir þá er Pútín svo óánægður með frammistöðu margra herforingja að hann hefur rekið marga þeirra að undanförnu. Þetta byggir Institute for the Study of War á gögnum frá úkraínsku leyniþjónustunni.
Meðal þeirra sem hafa fengið að taka pokann sinn eru aðmíráll flotadeildarinnar í Svartahafi en hann var æðsti yfirmaður beitiskipsins Moskvu, sem var flaggskip rússneska flotans, sem Úkraínumenn sökktu nýlega. Hann var rekinn og settur í fangelsi. Sömu örlög hlaut starfsmannastjóri Mosvku.
Rússar hafa sjálfir reynt að telja umheiminum, og sjálfum sér, trú um að Moskva hafi sokkið í kjölfar þess að eldur braust út um borð og barst í skotfærageymslu. Upplýsingar erlendra leyniþjónustustofnana og myndir af skipinu benda hins vegar til að fullyrðingar Úkraínumanna, um að þeir hafi hæft það með flugskeytum, séu réttar.
Institute for the Study of War segir að margir yfirmenn í landhernum hafi einnig verið reknir. Þar á meðal eru yfirmenn 1. skriðdrekadeildarinnar, 6. hersins og 22. stórfylkisins.
Sérfræðingar Institute for the Study of War segja að þetta sé rússneska hernum ekki til framdráttar. Þetta muni örugglega ekki bæta bardagagetu hans því líklega taki menn með minni reynslu við og séu þeir undir gríðarlegum þrýstingi um að ná þeim óraunhæfum markmiðum sem ráðamenn í Kreml hafa sett.