Rússar fordæmda stjórnvöld á Vesturlöndum, þar á meðal Ísland, fyrir að fóðra Úkraínumenn með vopnum í baráttunni gegn innrásarher Rússa. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á Facebook-síðu Sendiráðs Rússlands á Íslandi þar sem fullyrt er að frá því að Rússar fóru að „afhervæða og afnasistavæða“ Úkraínu hafi Bandaríkjamenn skaffað þeim vopn fyrir 2,5 milljónir bandaríkja dala og Evrópusambandið fyrir 1,5 milljónir bandaríkja dala.
Í yfirlýsingunni eru Bandaríkjamenn og Evrópusambandið sökuð um að vilja ekki frið í Úkraínu heldur séu þau að ýta undir við stjórnvöld landsins að barist verði til síðasta manns.
Þá sé það ábyrgðalaust að flytja svo mikið magn af vopnum til átakasvæðanna af því ógjörningur sé að fylgjast með því hvar þau enda. Því sé hætta á að þessi vopn endi á svörtum markaði og síðan í höndum vopnaðra gengja eða hryðjuverkasamtaka, ekki bara í Úkraínu heldur um allan heim.
Þá er þáttaka íslenskra stjórnvalda í vopnaflutningum gagnrýnd en yfirvöld hér á landi hafa skaffað þrettán fraktflugferðir til Úkraínu með vistir og hergögn síðan átökin hófust. Segir í yfirlýsingunni að íslensk stjórnvöld verði að átta sig á því að þessi gjörningur geti haft neikvæðar afleiðingar sem íslensk stjórnvöld muni bera ábyrgð á. Þá munu rússnesk stjórnvöld líta á íslensku fraktflugin sem löggild skotmörk.