Í gær birtust upptökur á samfélagsmiðlum sem virðast sýna Moskvu, sem var flaggskip rússneska flotans, í ljósum logum skömmu áður en skipið sökk í Svartahaf síðasta fimmtudag.
Missir Moskvu er stærsta einstaka tapið sem rússneski herinn hefur orðið fyrir síðan hann réðist inn í Úkraínu 24. febrúar síðastliðinn. Rússar halda því fram að óhapp hafi orðið um borð sem hafi orðið til þess að sprenging varð í skotfærageymsluskipsins og í kjölfarið hafi eldur kviknað og skipið síðan sokkið í slæmu veðri þegar verið var að draga það í land. Úkraínumenn staðhæfa hins vegar að þeir hafi hæft skipið með tveimur eldflaugum og sökkt því.
Á þriggja sekúndna myndbandi, sem er sagt hafa verið tekið frá björgunarbáti á fimmtudaginn, sést stórt og stórskemmt skip í ljósum logum. Það liggur þungt niður á bakborðshliðina í frekar rólegu veðri.
First ever footage of the Russian ship Moskva before it sank pic.twitter.com/YOYrmMz8MC
— Ragıp Soylu (@ragipsoylu) April 18, 2022
Á annarri mynd, sem einnig er í dreifingu á samfélagsmiðlum, sést stórt herskip í ljósum logum og með tvö skotgöt á skrokknum.
#Ukraine: The first image of the guided missile cruiser Moskva of the Russian Navy that sank a few days ago, via @Bormanike.
Depending on the side you choose to believe, the ship was either hit by 2x R-360 "Neptun" ASMs, or suffered a catastrophic ammunition fire. You decide. pic.twitter.com/CTRNAKT9ES
— 🇺🇦 Ukraine Weapons Tracker (@UAWeapons) April 17, 2022
Sérfræðingar Breska ríkisútvarpsins BBC hafa farið yfir myndirnar til að kanna hvort þær séu ófalsaðar og af Moskvu. Þeir spurðu þrjá hernaðarsérfræðinga út í þær og voru þeir allir sammála um að skemmdirnar á skipinu passi við þá frásögn úkraínska hersins að hann hafi hæft skipið með Neptune-flugskeytum og að útlit og lögun skipsins líkist Moskvu.
Sérfræðingarnir bentu einnig á að upptökurnar styðji ekki frásögn Rússa um að mjög vont veður hafi verið á þessum slóðum þegar skipið sökk og einnig bentu þeir á að svo virðist sem björgunarbátar skipsins hafi verið sjósettir.
Ónafngreindir embættismenn í bandaríska varnarmálaráðuneytinu Pentagon hafa í samtölum við bandaríska fjölmiðla sagt að þeir telji frásögn Úkraínumanna um örlög Moskvu vera rétta. Leyniþjónustuupplýsingar benda til að einhverjir úr áhöfninni hafi lifað af en margir hafi farist með skipinu.
Dmitry Peskov, talsmaður Pútíns, sagði í gærkvöldi að Rússar hefðu séð myndböndin en geti ekki sagt til um hvort þau séu ófölsuð eður ei. BBC skýrir frá þessu.
En hvort sem skipinu var sökkt af Úkraínumönnum eða óhapp varð til þess að það sökk þá telja sérfræðingar mjög ólíklegt að enginn úr áhöfninni hafi farist eins og rússnesk stjórnvöld halda fram.
The Guardian og rannsóknarmiðillinn Bellingcat skýrðu frá því í gær að foreldrar áhafnarmeðlima hafi fengið símtöl frá rússneska varnarmálaráðuneytinu þar sem þeim var tilkynnt að synir þeirra hefðu látist á hafi úti. Meðal annars var hringt í eina móður og henni sagt að 19 ára sonur hennar hefði fallið. Síðan var lagt á.