fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Hreinsanirnar í Eflingu

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 17. apríl 2022 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í kjölfar þess að Sólveig Anna Jónsdóttir sagði af sér sem formaður Eflingar í fyrra gerði ég að umtalsefni hér á þessum vettvangi íslenska nýsósíalismann sem hún er fulltrúi fyrir – hugmyndafræði sem í reynd er afsprengi amerískrar lágmenningar þar sem tekið er undir hvers kyns öfga í menningarefnum með innfluttu orðfæri sem lítt höfðar til íslenskrar alþýðu og hefur litla skírskotun til hérlends veruleika – enda kom á daginn að flokkur hennar, Sósíalistaflokkurinn, átti ekki hljómgrunn meðal þjóðarinnar.

Þá hefur orðfæri Sólveigar Önnu verið í meira lagi vanstillt og einkennst af fúkyrðaflaum. Sem dæmi má nefna að um Láru V. Júlíusdóttur, sérfræðing í vinnumarkaðsrétti, sagði Sólveig Anna eitt sinn að þar færi  „einn truflaðasti meðlimur reykvískrar borgarastéttar“ sem talaði „úr hliðarveruleika hinna auðugu“. Að mati Sólveigar Önnu var málflutningur Láru „ömurlegt þvaður í ruglaðri manneskju.“ Þetta er tungutak sem við höfum ekki átt að venjast í íslenskri þjóðmálaumræðu og alltént færir hana ekki á hærra plan.

Afsögn sína í fyrra tilkynnti Sólveig Anna í kjölfar yfirlýsingar trúnaðarmanna stéttarfélagsins en þar sagði að starfsmenn félagsins forðuðust að tjá skoðanir sínar af ótta við að „lenda í óvinahópi eða á aftökulistanum“ eins og það var orðað. Þetta væru ekki nýjar áhyggjur heldur hefðu þær dýpkað með árunum. Frá því að Sólveig Anna var kjörinn formaður höfðu 22 starfsmenn af liðlega 50 manna starfshópi hætt störfum ellegar verið sagt upp. Í ályktun trúnaðarmannanna sagði svo: „Það er ekki óeðlilegt að starfsfólk óttist hvað gerist næst. Svona mikil starfsmannavelta er auk þess heilmikið álag fyrir hinn venjubundna starfsmann.“

Rökstuðningur sem stenst enga skoðun

Svo fór að Sólveig Anna var endurkjörinn formaður og hreinsaði út af skrifstofunni eins og frægt er orðið að endemum. Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins á miðvikudagskvöldið var kvaðst Sólveigu Önnu sér finnast það

„algjörlega sturlað að verða vitni að því að það sé látið eins og það að hér sé hópuppsögn að eiga sér stað sé einhver stórkostleg nýlunda í íslensku samfélagi. Það er augljóslega ekki svo.“

Gagnrýni á hópuppsögnina kallaði Sólveig Anna „aðför að ákvörðunarrétti“ stjórnar Eflingar og bætti því við að umræðan um ákvörðunina endurspeglaði hversu lítil virðing sé borin fyrir verka- og láglaunafólki í íslensku samfélagi. Með þessum ummælum er Sólveig Anna að nota stöðu láglaunafólks sem skálkaskjól til að fá vilja sínum framgengt.

Í Kastljósviðtalinu kom líka fram að Sólveig Anna undraðist afstöðu Drífu Snædal, forseta ASÍ, til hópuppsagnarinnar og sagði hana „ráðast að drenglyndi, hollustu, skynsemi, greind og færni til þess að taka ákvarðanir hjá meirihluta stjórnar Eflingar“. Líklega er leitun að jafnmikilli fullvissu um eigið ágæti og þarna birtist.

Sjálf hafði Sólveig Anna ekki mætt á skrifstofu félagsins heldur látið lögmenn vera í samskiptum við starfsfólkið og sjálf ræddi hún ekki við starfsfólkið um uppsagnirnar. Slík framkoma atvinnurekenda gagnvart starfsfólki sínu yrði jafnan talin forkastanleg.

Starfsfólkinu boðið að kyssa á vöndinn

Enginn þarf að velkjast í vafa um það hver viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar yrðu ef atvinnurekandi innan vébanda Samtaka atvinnulífsins færi að með þessum hætti líkt og Friðrik Jónsson, formaður BHM, benti á og bætti við að bersýnilega væri verið að losa félagið við „óæskilega starfsmenn“. Í uppsagnarbréfinu er vísað til „skipulagsbreytinga“, „breyttra hæfniviðmiða“ og „breyttrar starfslýsingar“. Friðrik segir verkalýðshreyfinguna þekkja skýringar af þessu tagi

„af engu öðru en að hafa þann tilgang að lækka laun. Það að verkalýðsfélag gangi fram með þeim hætti er „athyglisvert“ svo ekki sé meira sagt.“

Sólveig Anna vísar jafnframt til jafnlaunastaðals í rökstuðningi með uppsögnunni en Friðrik segir að hér sé verið að misnota staðalinn til að réttlæta uppsagnir. Staðallinn hafi fram til þessa þvert á móti notaður til að hækka laun og jafna þá um leið stöðu kynjanna. Formaður BHM veltir því síðan upp í færslu á fésbókinni að hér eftir muni léttvægar ástæður til hópuppsagna eiga greiða leið og erfiðara en áður verði fyrir verkalýðshreyfinguna að spyrna við fótum. Fordæmið sem hér hafi verið sett muni hitta launafólk illa fyrir í framtíðinni og þá kannski ekki hvað síst láglaunafólk og láglaunakonur sem Sólveig Anna hefur einkum og sér í lagi talið sig berjast fyrir.

Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni nú í morgun tók Drífa Snædal, forseti ASÍ, óvenju sterkt til orða og sagði uppsagnirnar á skrifstofu Eflingar ekkert annað en „hreinsanir“. Sjálf kvaðst hún myndu gagnrýna hvern þann atvinnurekanda sem tæki ákvörðun af þessu tagi.

Vel að merkja þá var meirihluti þess starfsfólks sem nú var sagt upp ráðinn í formannstíð Sólveigar Önnu. En í áðurnefndu viðtali á Sprengisandi lét forseti Alþýðusambandsins þess getið að það væri á ábyrgð stjórnenda að skapa menningu á vinnustaðnum. Ef Sólveigu mislíkaði andinn á skrifstofunni væri við hana sjálfa að sakast, en í viðtalinu á Sprengisandi benti Drífa á að starfsfólkið hefði verið sett í þá „hryllilegu aðstöðu“ að vera boðið að sækja aftur um störf sín: „Þetta er svolítið eins og bjóða þér að kyssa vöndinn þegar þér hefur verið sagt upp,“ bætti Drífa við.

Í raun er eina rökrétta skrefið í framhaldinu að Sólveig Anna Jónsdóttir segi aftur af sér sem formaður Eflingar. Þessi flumbrugangur og vanvirðing gagnvart launafólki hefur nú þegar stórskaðað trúverðugleika verkalýðshreyfingarinnar allrar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Assange

Óttar Guðmundsson skrifar: Assange
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
21.06.2024

Steinunn Ólína skrifar: Kæra miðaldra Ísland

Steinunn Ólína skrifar: Kæra miðaldra Ísland
EyjanFastir pennar
20.06.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lítil auðnubót fyrir stofnanir lýðræðisins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lítil auðnubót fyrir stofnanir lýðræðisins
EyjanFastir pennar
15.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi