fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Fréttir

Eldræða séra Davíðs á Austurvelli – „Burt með strengjabrúður auðvaldsins úr ríkisstjórn“

Erla Hlynsdóttir
Föstudaginn 15. apríl 2022 15:56

Séra Davíð Þór Jónsson á Austurvelli í dag. Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framkvæmd sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka var mótmælt á Austurvelli í dag, en þetta eru önnur mótmælin sem eru haldin vegna sölunnar.

Séra Davíð Þór Jónsson var einn ræðumanna. Hann rifjaði upp að fermingarbörn ársins í ár eru fædd 2008, árið sem hrunið varð. Og af þessu hruni áttum við að læra. Hann sagði meðal annars í ræðu sinni, sem má lesa í heild sinni hér neðar:

„Hvað eiga öryrkjarnir, sem standa frammi fyrir því að eiga ekki fyrir mat síðustu helgina í mánuðinum af því að bíllinn þurfti að fara á verkstæði og restin af framfærslunni fór í það, og tárfella af þakklæti yfir að vera gefið 10.000 króna inneignarkort í Bónus af því að þá þurfa þeir ekki að vera svangir … hvað eiga þeir að læra á því að sumir fái símtöl áður en þeir ganga til náða sem gerir þeim kleyft að græða eina og hálfa milljón á tímann á meðan þeir sofa?

Að það séu ekki til peningar í ríkiskassanum til að borga fólki örorkubætur sem hægt er að draga fram lífið á?

Ætli það sé ekki líklegra að þeir dragi af því þann lærdóm að þeir, sem fara með völdin í landi okkar, séu þeirrar skoðunar að fólk sem ekki þekkir rétta fólkið megi þeirra vegna éta skít?“

Frá mótmælunum á Austurvelli í dag. Mynd/Ernir

Seldu skjótt með gróða

Ríkisendurskoðun hefur þegar hafið rannsókn á sölunni og einnig mun fjármálaeftirlit Seðlabankans skoða ákveðna þætti. Ríkisstjórnin hefur þó lagst gegn því að sérstök rannsóknarnefnd Alþingis verði sett á laggirnar. Fjöldi þeirra sem keyptu hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði á undirverði hafa þegar selt sinn hlut með gróða.

Að mótmælafundinum í dag stóðu Ung ASÍ, Jæja-hópurinn, Ungir Píratar, Ungir jafnaðarmenn og Ungi Sósíalistar.  Auk Davíðs voru á mælendaskrá þau Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjendasamtakanna.  Kröfur mótmælenda voru að sölunni á hlut ríkisins í Íslandsbanka verði rift, að stjórn Bankasýslu ríkisins víki og að Bjarni Benediktsson segi af sér.

Hér má í heild sinni lesa ræðu séra Davíðs sem hann gaf DV leyfi til að birta.

Davíð Þór Jónsson á Austurvelli í dag. Mynd/Ernir

 

Ávarp á Austurvelli

Það er gaman að hafa rétt fyrir sér. Það er gaman þegar tíminn leiðir í ljós að eitthvað sem maður sagði og lét hafa eftir sér var nákvæmlega sannleikurinn.

Í janúar í fyrra setti ég eftirfarandi færslu á facebook:

„Vegna þess að ég heyrði ráðherra nýlega tala um nauðsyn þess að „setja eigur ríkisins á markað“ finnst mér nauðsynlegt að afrugla aðeins hvernig sagt er frá þessu. Hér eru tvö orð sem vert er að gefa gaum að merkingunni í og því hvernig þau eru notuð. Hið fyrra er „markaður“. Hverjir eru „markaðurinn“? Ég er ekki á þessum markaði og fólkið sem kemur hingað (ég var í vinnunni þegar ég skrifaði þetta) til að biðja um hjálp er það ekki heldur. Öryrkjar eru ekki á þessum markaði. „Markaður“ er nefnilega í raun fínt orð yfir það sem kallað er „fjármagnseigendur“, sem aftur er aðeins skrúðyrði yfir þá sem eiga peningana, þ.e. auðmenn. Hitt orðið er „ríkið“. Hverjir eiga „ríkið“? Það er í raun almenningur í þessu landi, þjóðin. Höfum þess vegna alveg á hreinu að þegar talað er um að setja eigur „ríkisins“ á „markað“ er í raun verið að tala um að koma eigum þjóðarinnar í hendur auðmanna.“

Það er skemmst frá því að segja að komið er á daginn að þarna er ekkert ofsagt.

Það er gaman að hafa rétt fyrir sér. En það skyggir reyndar svolítið á gleðina í þetta sinn að það sem ég hafði rétt fyrir mér um er að fjármálakerfið okkar er á valdi siðblindingja.

Af hverju var ég að gapa þetta á facebook? Jú, af því að ég er svo hundgamall að ég man eftir atviki sem átti sér stað fyrir fjórtán árum og aðdraganda þess. Þetta atvik er kallað „hrunið“. Aðdragandi þess er oft kallaður „góðærið“ eða jafnvel „góðærisfylleríið“. Já, það eru fjórtán ár síðan. Fermingarbörn ársins í ár eru fædd 2008, árið sem hrunið varð.

Þeir sem fylgjast með átta sig strax á því … reyndar þarf maður eiginlega að hafa hafst við lokaður inni í helli síðan hrunið varð til að átta sig ekki á því … að allir lærdómar sem dregnir voru af hruninu voru vitlausir. Góðærisfnykurinn er gosinn upp aftur. Vinir eru farnir að skammta vinum sínum eigur almennings á gjafverði eftir geðþótta eins og ekkert hafi í skorist.

Samt var mantran „Við verðum öll að læra af þessu“ sungin hátt af þeim sem báru ábyrgðina á hruninu. Og gott ef ekki hefur heyrst um nýyfirstaðið rán á hlut þjóðarinnar í Íslandsbanka að það sé eitthvað sem við verðum að „læra af“.

Gott og vel.

Lærum þá af því.

En hvað? Hvað eigum við að læra? Og hver á að læra hvað?

Hvað á einstæða þriggja barna móðirin sem vinnur fullan vinnudag í eldhúsinu á Landspítalanum og tilkynnti mér fyrir nokkru að hún ætlaði að taka allar þær vaktir sem henni byðust yfir jólin til að þurfa ekki að vera heima því hún hefði ekki efni á að gera sér og börnunum neinn dagamun á stærstu hátíð ársins?

Hvað á hún að læra af því að aðrir græða eina og hálfa milljón á klukkutímann á meðan þeir sofa af því að vinir þeirra hringja í þá áður en þeir ganga til náða?

Hvað á hún að læra? Að fjármálakerfið sé of flókið fyrir fólk eins og hana að skilja? Að það séu ekki til peningar í ríkiskassanum til að borga henni nógu hátt kaup til að hún geti gert fjölskyldu sinni dagamun á jólunum?

Ætli það sé ekki sennilegra að hún læri að þeim, sem fara með völdin, þykir mikilvægara að vinir rétta fólksins græði eina og hálfa milljón á tímann á meðan þeir sofa heldur en að fólk eins og hún geti lifað á laununum sínum?

Hvað eiga öryrkjarnir, sem standa frammi fyrir því að eiga ekki fyrir mat síðustu helgina í mánuðinum af því að bíllinn þurfti að fara á verkstæði og restin af framfærslunni fór í það, og tárfella af þakklæti yfir að vera gefið 10.000 króna inneignarkort í Bónus af því að þá þurfa þeir ekki að vera svangir … hvað eiga þeir að læra á því að sumir fái símtöl áður en þeir ganga til náða sem gerir þeim kleyft að græða eina og hálfa milljón á tímann á meðan þeir sofa?

Að það séu ekki til peningar í ríkiskassanum til að borga fólki örorkubætur sem hægt er að draga fram lífið á?

Ætli það sé ekki líklegra að þeir dragi af því þann lærdóm að þeir, sem fara með völdin í landi okkar, séu þeirrar skoðunar að fólk sem ekki þekkir rétta fólkið megi þeirra vegna éta skít?

Hvaða lærdóm á gamla fólkið, sem rannsóknir hafa sýnt að er vannært vegna fátæktar, að draga af því að aðrir en það græði eina og hálfa milljón á tímann á meðan þeir sofa af því að þeir fengu símtal? Að ráðamönnum sé umhugað um að það geti átt áhyggjulaust ævikvöld í þakklætisskyni fyrir heila starfsævi sem varið var í þágu lands og þjóðar? Ætli það sé ekki sennilegra að það læri að samfélag okkar spýtir fólki eins og því út úr sér eins og hverju öðru rusli um leið og það er ekki lengur hægt að græða peninga á því.

Og unglingsstúlkan með geðrænu vandamálin sem þurfti að bíða í eitt og hálft ár eftir að fá hjálp og komst ekki inn á BUGL af því að það var ekki pláss fyrir hana þar þótt viðurkennt væri að hún væri í bráðri sjálfsvígshættu? Hvað á hún að læra?

Hún mun reyndar ekki læra neitt því hún stytti sér aldur nú í haust, 14 ára gömul.

En ætli ástvinir hennar hafi ekki lært að við búum í samfélagi sem forgangsraðar þannig að fyrst græða hinir ríku og svo getum við farið að hugsa um veik börn.

Og hvað á gæinn sem græddi eina og hálfa milljón á tímann á meðan hann svaf að læra af þessu? Og hvað á vinur hans sem hringdi í hann að læra?

Ég veit hvað mér finnst að þeir ættu að læra. Þeir ættu að læra allt um það hvernig lífið er á Litla-Hrauni … af reynslunni.

En ætli sé það ekki líklegra að þeir læri að um þá gilda aðrar reglur en sauðsvartan almúgann. Að þeir séu elítan, að þeir hafi einkaaðgang að troginu sem alþýðan fyllir af kræsingum sem hún fær aldrei að smakka.

Það er ekkert að hausnum á fólki sem tekur ákvarðanir eins og þá sem við erum hér að mótmæla eða fólkinu sem er boðið að taka þátt í partíinu. Þetta er klárt og snjallt, útsmogið og greint fólk sem spilar á kerfið eins og okkar mestu virtúósar spila á hljóðfærin sín. Það er ekkert að hausnum á þessu fólki.

En Guð minn góður, er það með hjarta?

Hvernig var ferlið þegar þetta var ákveðið?

Nú eigum að selja völdum fjárfestum eign þjóðarinnar á slíkum afslætti að ekki er hægt að kalla það neitt annað en rán um hábjartan dag og þiggja fyrir ómakið 700 milljónir af almannafé. Hverjum eigum við að bjóða að vera með?

Ég veit! Hringjum í kynferðisglæpamenn, sérstaka velunnara og verndara barnaníðinga, fólk sem sætir sakamálarannsókn vegna spillingar, fjármálamisferlis og mútugreiðslna. Hringjum í fólk með langa slóð gjaldþrota að baki þar sem ekki fékkst króna upp í kröfur. Já og hringjum í fólk sem var á bólakafi í sukkinu sem orsakaði hér algjört og fullkomið efnahagshrun fyrir fjórtán árum en slapp óskaddað úr þeim hildarleik á sama tíma og þúsundir blásaklausra Íslendinga misstu aleiguna, ævisparnaðinn, vinnuna og heimilið og fjöldi ungmenna, sem var erlendis í námi til að geta látið framtíðardrauma sína rætast, varð að gefa þá upp á bátinn af því að eins og hendi væri veifað voru íslensku krónurnar sem námslánin voru greidd með orðnar verðlausar.

Hringjum í þetta fólk.

Þetta er listinn yfir fólkið sem var boðið að taka þátt. Og flest af því er búið að selja á eðlilegu verði og græða mismarga tugi og hundruð milljóna á því að hafa verið nógu vel tengt til að fá boðskort í orgíuna.

Og hverjum seldi það? Jú, okkur. Lífeyrissjóðunum okkar, sem voru reiðubúnir til að borga sanngjarnt verð fyrir hlutinn, en var ekki boðið að vera með. Það var nefnilega mikilvægara að rétta fólkið gæti grætt eina og hálfa milljón á klukkutímann á meðan það svaf heldur en að fá sanngjarnt verð fyrir eigur almennings – sem var í boði.

Við skulum læra af þessu.

Lærum að treysta aldrei aldrei aldrei aftur þessu fólki fyrir nokkrum sköpuðum hlut.

Lærum að treysta aldrei aldrei aldrei aftur stjórnmálaflokkunum sem mynda ríkisstjórnina sem lét þetta viðgangast.

Krafa okkar er skýlaus og sanngjörn:

Burt með siðblindingjana úr fjármálakerfinu.

Burt með strengjabrúður auðvaldsins úr ríkisstjórn.

Burt með duglaust og huglaust Alþingi sem ekki hefur döngun í sér til að samþykkja vantraust á ríkisstjórn sem ekki bara leyfir heldur leggur blessun sína yfir gripdeildir siðblindingja á eigum þjóðarinnar.

Lærum af þessu.

En í þetta sinn skulum við draga réttan lærdóm af því sem blasir við okkur.

Það sem blasir við okkur er ógeð á ógeð ofan.

Þessu ógeði þarf að bylta.

Og það þarf að bylta því núna.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Diljá spyr hvort aðeins fólk með réttar skoðanir megi tala um kynbundið ofbeldi

Diljá spyr hvort aðeins fólk með réttar skoðanir megi tala um kynbundið ofbeldi
Fréttir
Í gær

Stefán Einar hraunar yfir kennaraforystuna – „Er metnaðarleysið algjört á þessum stöðum?“

Stefán Einar hraunar yfir kennaraforystuna – „Er metnaðarleysið algjört á þessum stöðum?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stingskatan Karlotta varð ólétt án maka – Meyfæðingin raungerðist þó ekki

Stingskatan Karlotta varð ólétt án maka – Meyfæðingin raungerðist þó ekki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sögðu móður sína ekki muna kennitöluna sína þegar hún gerði erfðaskrána sem tvístraði systkinahópnum

Sögðu móður sína ekki muna kennitöluna sína þegar hún gerði erfðaskrána sem tvístraði systkinahópnum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Flugi til Íslands aflýst vegna bilunar á síðustu stundu – Vélin var komin út á flugbrautina

Flugi til Íslands aflýst vegna bilunar á síðustu stundu – Vélin var komin út á flugbrautina
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gestrisni Íslendinga kom spænsku pari gríðarlega á óvart – „Þetta fólk þekkti okkur ekki neitt“

Gestrisni Íslendinga kom spænsku pari gríðarlega á óvart – „Þetta fólk þekkti okkur ekki neitt“