Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, veltir því fyrir sér hvort Vilhjálmur Birgisson, nýkjörinn formaður Starfsgreinasambandsins, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, séu á lífi. Vísar hann þá til þess að hvorki Ragnar Þór né Vilhjálmur hafi tjáð sig um hópuppsögn Eflingar og hafa fjölmiðlar ekki náð sambandi við þá undanfarna daga.
Fjöldi þeirra starfsmanna sem fengu uppsagnarbréf í gærkvöldi og í nótt eru félagsmenn í VR og því hafa margir beðið þess að heyra afstöðu Ragnars Þórs í málinu, en hann og Vilhjálmur eru báðir miklir stuðningsmenn Sólveigar Önnu, formanns Eflingar. Brynjar skrifar á Facebook:
„Nú hefur stjórn Eflingar sagt upp eða ákveðið að segja upp öllum starfsmönnum félagsins ef marka má fréttir. Gengið er þar harðar fram en harðsvíruðustu kapitalistar þyrðu nokkurn tímann að gera. Nú er Efling í Starfsgreinasambandinu og margir starfsmenn Eflingar í VR. Mér finnst vera frétt dagsins að ekkert heyrist í Villa vini mínum Birgis, nýkjörnum formanni Starfsgreinasambandsins, eða í Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR. Er ekki rétt að einhver auglýsi eftir þeim eða athugi hvort þeir séu á lifi?“