Deildarstjóri við grunnskóla á Suðurnesjum, sem jafnframt á sæti í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar, er sökuð um að hafa áreitt tæplega tvítugan dreng svo mánuðum skipti í lok síðasta árs. Fréttablaðið greinir frá en drengurinn gagnrýnir bæjarvöld á Suðurnesjum vegna aðkomu þeirra í málinu og veltir upp þeirri spurningu hvort eins hefði verið brugðist við ef um karlkyns geranda væri að ræða. Heimildir DV herma að umræddur skóli sé Sandgerðisskóli.
Pilturinn, sem starfar við sama grunnskóla og konan, kærði málið til lögreglu í mars en lögregla felldi málið niður með vísan til þess að ekki væru fyrir hendi nægilega sterkar sannanir. Var konunni og piltinum boðin sáttameðferð í málinu.
Líkt og áður segir gagnrýnir pilturinn bæjaryfirvöld vegna þeirra aðkomu, en hann hafi sett inn færslu á Instagram með samskiptum sínum við umrædda konu. Þá hafi bæjaryfirvöld sett sig í samband við lögmann piltsins og beðið hann um: „að fjarlægja færsluna og hótuðu mér brottrekstri.“
Pilturinn segir málið einkennast af meðvirkni og veltir því upp hvort að sambærilegri þöggun hefði verið beitt ef kona á tvítugsaldri hefði orðið fyrir sambærilegri áreitni.
„Þetta er ekkert annað en meðvirkni í litlu bæjarfélagi og hlutunum sópað undir teppið.“
Fréttablaðið ræddi einnig við móður drengsins en hún sagði að bæjaryfirvöld hafi á fundi hvatt son hennar til að fara aðrar leiðir í málinu en að kæra.
„Það var verið að letja mann sem er búinn að taka ákvörðun um að tilkynna málið til lögreglu.“
Skjáskot af áðurnefndri færslu á Instagram hafa gengið manna á milli undanfarið, en þar biðst konan afsökunar á framferði sínu og viðurkennir að hafa komið illa fram.