Simon Cowell hefur ákveðið að segja skilið við fylliefni og bótox, og ætlar að leyfa andliti sínu að verða náttúrulegt á ný.
„Það getur verið að ég hafi gengið of langt á tímabili,“ viðurkenndi hann í viðtali við The Sun og sagði að honum var farið að líða eins og hann væri „eitthvað úr hryllingsmynd.“
„Ég sá „fyrir“ mynd af mér og ég þekkti mig ekki,“ sagði hann.
Simon, sem er 62 ára, sagði að átta ára sonur hans, Eric, hefði verið í hláturskasti eftir að hafa séð umrædda mynd og fannst fyndið hvað andlit föður hans hafi breyst mikið. Það var nóg til þess að America’s Got Talent dómarinn ákvað að segja skilið við fylliefni og leita náttúrulegri leiða til að halda ungu og frísklegu útliti.
„Þetta var komið gott, það er ekkert fylliefni núna í andliti mínu,“ sagði hann.
Að sprauta fylliefni í andlit er vinsæl fegrunaraðgerð, sérstaklega í Hollywood. „Það kom tímabil þar sem allir voru að pumpa andlitið fullt af þessu og hinu. En fyrir mig snýst þetta núna um að borða hollt og drekka nóg af vatni.“