Lögmannastofan Offico, sem er í eigu Braga Rúnars Axelssonar, fyrrverandi forstöðumanns útibús Innheimtustofnunar sveitarfélaga (IHS) á Ísafirði, fékk rúmlega 43 milljónir króna frá stofnuninni, samkvæmt samningi sem gerður var vorið 2020.
Þetta sýna gögn sem DV hefur undir höndum.
Bragi og forstjóri IHS, Jón Ingvar Pálsson, voru í desember síðastliðnum settir í leyfi í kjölfar rannsóknar Ríkisendurskoðunar á starfsemi stofnunarinnar. Fyrir skömmu voru þeir síðan báðir reknir úr starfi. Þeir voru síðan handteknir og færðir til yfirheyrslu hjá lögreglu ásamt kerfisfræðingi hjá IHS. Ekki var farið fram á gæsluvarðhald.
Samkvæmt frétt RÚV í gær eru fleiri en þessir þrír með réttarstöðu sakbornings í málinu. Segir Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, í viðtali við RÚV að rannsóknin sé nokkuð umfangsmikil en henni miði ágætlega. Enginn hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Þess má geta að húsleitir hafa verið gerðar í rannsókninni, ekki liggur fyrir hjá hverjum.
Misferlið sem menn eru grunaðir um er að hafa úthýst með ólögmætum hætti innheimtuverkefnum IHS til fyrirtækja í eigu Braga. Greiðslur IHS til Braga eru eftirfarandi: kr. 43.599.638,- runnu til lögmannastofunnar Offico sem er í eigu Braga. Til fyrirtækisins Vísnasöngur, sem er að hluta í eigu Braga, hafa runnið eftirfarandi upphæðir rúmlega milljón á ári síðan árið 2019: Árið 2019 kr. 1.133.325,- árið 2020 kr. 1.180.875,- og árið 2021 kr. 1.182.240,-.
Samtals eru þetta rúmlega 47 milljónir króna.
Ljóst er að Bragi hefur hagnast vel af sambandi sínu við IHS, því auk þessarra greiðslna var hann í vellaunuðu starfi hjá stofnuninni.