Vísir.is skýrir frá þessu. Fram kemur að uppsagnirnar séu hluti af breytingartillögu til stjórnar um að umfangsmiklar skipulags- og rekstrarbreytingar verði gerðar á skrifstofu Eflingar. Í tillögunni er einnig gert ráð fyrir breytingum á ráðningarkjörum allra starfsmanna félagsins og af þeim sökum er starfsfólkinu sagt upp. Uppsagnirnar eiga að taka gildi um næstu mánaðamót. Öll störfin verða auglýst og krafa verður gerð um að starfsfólk vinni uppsagnarfrestinn.
Fulltrúar minnihlutans í stjórninni gagnrýndu tillöguna harðlega en hún var lögð fram á fyrsta starfsdegi Sólveigar Önnu sem formanns og á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar sem tók við á aðalfundi félagsins síðasta föstudag. Vísir segist hafa heimildir fyrir að Sólveig hafi ekki mætt til vinnu á fyrsta starfsdegi, hafi látið nægja að sitja stjórnarfundinn.