fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Banvæna bólusetningin- Furðusaga eins sérkennilegasta bankaráns sögunnar

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Föstudaginn 8. apríl 2022 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allir hafa séð bíómyndir þar sem krimmarnir ganga með grímu inn í banka og hóta bankastarfsmönnum og viðskiptavinum með byssu meðan að þeir ræna bankann. Svo koma löggur og umkringja bankann, einhver kemur á sambandi við ræningjana og svo framvegis. En það er unnt að ræna banka á fleiri vegu eins og kom svo skelfilega í ljós í Tókýó í Japan árið 1948.

Þá urðu atburðir sem japanska þjóðin ræðir enn þann dag í dag. 

Glæpurinn

Þann 26. janúar gekk maður inn í Imperial bankann rétt fyrir lokun. Hann sagði starfsfólkinu að hann væri á vegum heilbrigðisyfirvalda, sendur af yfirmönnum bandaríska setuliðsins til að bólusetja starfsfólkið gegn blóðkreppusótt.

Sadamichi Hirasawa sem ungur maður.

Bankastarfsfólkið efaðist ekki um sannleiksgildi orða hans og opnaði maðurinn tösku líka þeim læknar gengu með, tók eitthvað upp úr henni, og bað fólkið um að mynda röð. Fimmtán starfsmenn bankans og eitt barn sem hafði heimsótt foreldri sitt í vinnuna tóku töflu sem maðurinn rétti þeim svo og nokkra dropa af glærum vökva. Innan nokkurra mínútna byrjaði fólkið að fá flog og falla í gólfið. Á meðan að sextán manns lágu í gólfinu og börðust fyrir lífi sínu gekk maðurinn hinn rólegasti á milli afgreiðsluborða og tæmdi kassa gjaldkera í læknatöskuna. Hann gekk síðan út með 160 þúsund jen eða um 1,3 milljónir króna að núvirði. Ekki er um tiltölulega háa upphæð að ræða, sérstaklega með tilliti til þess að maðurinn var reiðubúinn að myrða sextán manns fyrir hana, en eins merkilegt og það er voru mun meiri fjármunir í bankanum sem maðurinn skildi eftir.

Sadamichi Hirasawa

Tíu starfsmenn bankans létust á gólfinu og aðrir tveir létust á sjúkrahúsi. Í ljós kom að fólkinu hafði verið byrluð blásýra. Aðeins fjórir lifðu bankaránið af.

Nafnspjaldið

Við rannsókn málsins kom í ljós að nokkrum mánuðum áður höfðu verið gerðar tvær svipaðar tilraunir í öðrum bönkum en í bæði skiptin höfðu starfsmenn neitað að taka lyf ,,heilbrigðisstarfsmannsins”. 

Í fyrra tilfellinu hafði maðurinn rétt bankastarfsmanni nafnspjald sem á stóð Jiro Yamaguchi og var hann titlaður læknir. Það reyndist falsað. Í seinna tilfellinu hafði hann rétt fram nafnspjald sem á stóð Shigeru Matsui. Shigeru Matsui var aftur á móti raunverulegur maður sem ekkert vildi kannast við að hafa rænt banka og hafði þar að auki fjarvistarsönnun.

Lögmenn Sadamichi reyndu margoft að fá dómnum hnekkt

Ljóst var að einhver sem hafði haft nafnspjald hans undir höndum hafði notað það til að drýgja þennan hræðilega glæp. 

Ferjan

Matsui sagði lögreglu að hann hefði látið prenta 100 eintök af þessu ákveðna nafnspjaldi og ætti aðeins átta stykki eftir. Það þýddi að það voru 92 einstaklingar með nafnspjald hans upp á vasann. Á árum áður var álitið mikilvægt að skiptast á nafnspjöldum og kannski enn meira svo í japanskri menningu. Flestir gengu með lítið veski á sér þar sem þeir geymdu nafnspjöld þeirra sem þeir skiptust á spjöldum við. Matsui var jafnvel enn nákvæmari og hafði það fyrir sið að skrá hjá sér hvar og hvenær hann skiptist á nafnspjöldum. Lögreglan gat strax útilokað 66 manns sem höfðu fjarvistarsönnun og aðrir 22 voru fljótlega hreinsaðir af öllum grun. Eftir stóðu 8 menn sem hefðu getað framið ódæðið.

Málverk eftir Sadamichi Hirasawa

Einn þeirra var Sadamichi Hirasawa. Matsui mundi eftir að hafa hitt hann á ferju til Hokkaido eyju og kvaðst Sadamichi vera á leið á myndlistarsýningu á verkum sínum. Þeir spjölluðu saman í mesta bróðerni, kvöddust með virktum að ferð lokinni og skiptust á nafnspjöldum. 

Rannsóknin

Lögregla ákvað að skoða myndlistarmanninn á ferjunni betur. Við yfirheyrslur vildi Sadamichi ekki kannast við neitt bankarán í Imperial bankanum, hvað þá morð. Hann gat aftur á móti ekki lagt fram fjarvistarsönnun og kvaðst hafa verið einn á göngu þeim tíma sem ódæðið var framið.

Málverk eftir Sadamichi Hirasawa

Aðspurður um hvort hann gæti framvísað nafnspjaldi Matsui sagði Sadamichi það því miður ekki hægt þar sem vasaþjófar hefðu stolið veski hans með nafnspjaldinu í. Við húsleit fannst svo svipað magn reiðufés og stolið hafði verið úr bankanum. Neitaði Sadamichi að gefa upplýsingar um hvaðan hann hefði fengið féð.

Þrátt fyrir að harðneita aðkomu að glæpnum var Sadamichi handtekinn sjö mánuðum síðar og ákærður fyrir tólf morð, fjórar tilraunir til morðs og bankarán. 

Listamaðurinn

Sadamichi Hirasawa var fæddur árið 1892 og sýndi snemma fram á afburða hæfileika á sviði myndlistar. Hann hafði þegar skapað sér nafn í námi, varð eftirsóttur vatnslitamálari og voru verk hans sýnd á fjölda listsýninga í Japan. Hann var víða heiðraður og  vann til fjölda verðlauna fyrir list sína.

Hann kvæntist árið 1916 en átti fjölda ástkvenna. Árið 1921 veiktist Sadamichi og var greindur með Korsakoff sjúkdóm sem hefur áhrif á minnisstöðvar heilans og fjórum árum síðar féll hann í dá í þrjá mánuði eftir sprautu gegn hundaæði.  Hirosawa barðist við veikindi næsta aldarfjórðunginn en tókst þó að halda listaferli sínum gangandi. Hann skildi við eiginkonu sína árið 1947 og flutti til Tókýó þar sem hann byggði sér hús og hélt áfram að mála.

Sadamichi Hirasawa

Á 35 ára afmæli félags japanskra vatnslitamálara, sem hann hafði tekið þátt í að stofna, tók hann ferju á afmælissýninguna í Hokkaido.

Á ferjunni hitti hann mann að nafni Matsui og skiptust þeir á nafnspjöldum. 

Dómurinn

Sadamichi játaði að hafa gefið bankastarfsfólkinu eitur og rænt bankann. Hann dró játningu sína síðar til baka og sagðist hafa verið pyntaður í varðhaldinu. Lögmenn hans héldu fram að játningin væri af völdum Korsakoff sjúkdómsins og því ekkert mark á henni takandi. Tvö af fjórum eftirlifandi vitnum sögðu Sadamichi vera manninn sem byrlaði þeim eitrið og árið 1950 var Sadamichi dæmdur til dauða, 58 ára að aldri. Hæstiréttur staðfesti dauðadóminn fimm árum síðar. Lögmenn hans reyndu hvorki meira né minna en átján sinnum að fá dóminum hnekkt eða láta efna til nýrra réttarhalda án árangurs. 

Sadamichi Hirasawa á efri árum

Sadamichi sat á dauðadeild í 32 ár. Hann málaði af krafti og skrifaði ævisögu sína.  Þegar hann var 82 ára fékk hann hjartaáfall en náði sér af því og hélt ótrauður áfram að mála. Sadamichi lést af náttúrulegum orsökum í maí 1987, 95 ára að aldri.

Hann hélt fram sakleysi sínu til dauðadags. 

Sekur?

Ekki voru þó allir jafn vissir um sekt Sadamichi og neituðu bæði dómarar og stjórnmálamenn að skrifa undir fullnustu dauðadómsins. Frá upphafi voru uppi raddir sem bentu á að einu raunverulegu sannanirnar hefðu verið játning, sem hugsanlega hafði verið fengin með saknæmum hætti, og vitnisburður tveggja einstaklinga sem sögðust þekkja ör á andliti Sadamichi. Enn þann dag í dag velta menn fyrir sér hvort hugsanlegt geti verið að hann hafi verið saklaus og hafa allar hliðar málsins verið grannskoðaðar. Má þar nefna fjarvistarsönnun hans. Sadamichi heimsótti tengdason sinn og fór því næst til dóttur sinnar þennan örlagaríka dag. Þaðan hélt hann klukkan 15:30, nákvæmlega á sama tíma og ránið átti sér stað. Það hefði verið útilokað fyrir hann að komast frá heimili hennar og að bankanum á örfáum mínútum. Aftur á móti taldi rétturinn að dóttirin hefði logið til um tímasetninguna til að vernda föður sinn.

Málverk eftir Sadamichi Hirasawa

Herinn

Annað sem vekur athygli er eitrið sem fólkinu var byrlað. Í fyrstu var talið að um blásýru hefði verið að ræða en það getur ekki staðist þar sem blásýra drepur samstundis.

Það er útilokað að sextán manns hefðu staðið í röð og tekið eitrið hvert á fætur öðru. Í dag er talið að hugsanlega hafi um svonefnt acetone cyanohydrin að ræða, efni sem bandaríski herinn þróaði á stríðsárunum og hélt leyndu. Það er engin leið að Sadamichi hefði getað komist yfir slíkt efni sem sumir segja að hafi verið notað í leynilegum rannsóknum á vegum bæði bandarískra og japanskra heryfirvalda.

Dónamyndirnar

Hvað peningana sem fundust á heimilinu varðar hefur verið bent á að Sadamichi tók að öllum líkindum að sér að mála ,,Shunga” málverk, erótísk og allt að klámfengin listaverk sem voru vinsæl meðal auðmanna.

Sadamichi lést 95 ára að aldri.

Sadamichi var virtur listamaður og talið að hann hafi skammast sín mjög fyrir að þiggja fé fyrir slíka list. Hann þurfti aftur á móti sárlega á því að halda í erfiðleikum Japans eftirstríðsáranna. Mörgum árum eftir dóminn fundust Shunga málverk sem talið er að hann hafi málað en Sadamichi hafi aldrei getað fengið sig til að játa að hafa fengið greitt fyrir dónamyndir. 

Enginn veit fyrir vissu hvort Sadamichi Hirasawa framdi fjöldamorð þennan janúardag árið 1948. Var um að ræða bankaræningja sem slapp þar sem lögregla einbeitti sér einungis að Sadamichi frá upphafi? Eða jafnvel leynilega tilraun á vegum stjórnvalda? 

Enn þann dag í dag, 74 árum eftir glæpinn, er fólk klofið í afstöðu sinni. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Í gær

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“