Marilyn Monroe er vafalaust ein frægasta leikkona sögunnar og var helsta kyntákn sjötta áratugs síðustu aldar. Til þessa dags þekkir bæði yngra og eldra fólk nafn hennar og hefur séð af henni myndir, óháð því hvort þau hafi nokkru sinni horft á kvikmyndir hennar. Marilyn Monroe lést þann 5. ágúst 1962, tæplega 36 ára gömul, og var mikið fjölmiðlafár í kringum dauða hennar. Hún fannst nakin í rúmi sínu með hendur niður með síðum og í ljós kom að hún hafði gleypt gríðarlegt magn af lyfjum. Talið var víst að um sjálfsvíg hafi verið að ræða.
Leikkonan hét Norma Jeane Mortenson áður en hún var fræg. Fáir vita um líf hennar fyrir frægðina og var æska hennar sársaukafull og erfið. Hún var flutt á milli mismunandi fósturheimila og var þar kynferðislega misnotuð.
Marilyn giftist sextán ára gömul til að flýja fósturheimilin. Nokkrum árum seinna sat hún fyrir nakin og fékk fyrir það 50 dollara, en á þeim tíma átti hún varla efni á mat og var að reyna að skapa sér nafn í leiklistinni. Hún notaði annað nafn í myndatökunni til að koma í veg fyrir að þetta myndi fylgja henni. Hins vegar hafði Hugh Hefner, stofnandi Playboy, upp á myndunum eftir að Marilyn varð fræg og birti þær, án hennar leyfis eða vitneskju.
Á þessum tíma var hann að byggja upp vörumerki Playboy og komu myndirnar tímaritinu á kortið, en eyðilögðu næstum því feril Marilyn.
„Ég fékk ekki einu sinni takk frá öllum þeim sem græddu milljónir af nektarmyndum af mér. Ég þurfti að kaupa eintak af tímaritinu til að sjá mig í því,“ sagði Marilyn á sínum tíma.
Marilyn lést að verða 36 ára gömul og var lögð til hinstu hvíldar í Westwood Village Memorial Park í Los Angeles.
Árið 1992 var grafreiturinn við hliðina á henni til sölu og keypti Hugh Hefner hann fyrir sjálfan sig, svo hann gæti hvílt við hennar hlið að eilífu, þrátt fyrir að þau hefðu aldrei talast við.
Þegar hann lést árið 2017 var hann lagður þar til hvíldar og gat Marilyn ekki mótmælt að maðurinn sem braut á henni og birti nektarmyndir hennar án leyfis, myndi nú hvíla með henni í eilífðinni.
En það er ekki það eina sorglega á bak við gröf hennar.
Richard Poncher hvílir í grafreitnum fyrir ofan Marilyn. Hann keypti reitinn af Joe DiMaggio, fyrrverandi eiginmanni hennar.
Richard var bandarískur viðskiptamaður og var með leikkonuna á heilanum nánast allt sitt líf. Þráhyggja hans gekk svo langt að hann lagði fram furðulega beiðni; að hann myndi snúa með andlitið niður þegar hann yrði grafinn, þannig myndi andlit hans snúa í átt andlits Marilyn Monroe.
Hann fékk ósk sína uppfyllta þegar hann lést árið 1986, 81 árs að aldri. Eiginkona hans, Elsie Poncher, hvílir við hlið hans.
Þegar Marilyn Monroe giftist Arthur Miller árið 1956, sem var af pólskum gyðingaættum, tók hún gyðingdóm.
Þegar þau skildu árið 1961 sagðist hún ekki ætla sér að afneita trúnni en þegar hún lést ári seinna fékk hún hvorki útför af gyðingahefð né grafin af gyðingasið, heldur var hún lögð til hvíldar í hinum trúlausa garði, Pierce Brothers Westwood Village Memorial Park & Mortuary.
Sjá einnig: Ný heimildarmynd um Marilyn Monroe afhjúpar gamalt fjölskylduleyndarmál
Tvær heimildarmyndir um Marilyn munu koma út í ár, annars vegar Marilyn, Her Final Secret á frönsku sjónvarpsrásinni Toute l’Histoire í sumar, og hins vegar The Mystery of Marilyn Monroe: The Unheard Tape sem kemur út á streymisveitunni Netflix þann 27. apríl næstkomandi.