Í svari Katrínar kom einnig fram að ráðherrar sitji í umboði þingflokka sinna og sem kjörnir fulltrúar í umboði kjósenda sinna. „Þessir aðilar geta haft áhrif á setu þeirra, meti þeir atvik eða breytni svo að ekki sé lengur traust á störfum ráðherrans í hverju tilviki fyrir sig. Þá getur þingið samþykkt vantrauststillögu á hendur einstaka ráðherrum eða á forsætisráðherra og ríkisstjórn hans. Gerðar eru ríkari kröfur til ráðherra í ríkisstjórn en til annarra um háttsemi,“ segir einnig í svari hennar við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Í fyrradag sagði Katrín á þingi að hún muni ekki gera kröfu um að Sigurður Ingi stígi til hliðar. „Það liggur algerlega fyrir að þau ummæli sem vitnað er til voru óásættanleg,“ sagði hún og bætti við að einnig verðum við að geta tekið því þegar fólk biðst afsökunar eins og Sigurður Ingi hafi gert.
Atli Þór Fanndal, hjá Íslandsdeild Transparency, sagði í samtali við Fréttablaðið að Katrín hefði átt að þrýsta á afsögn Sigurðar Inga: „Það er of boðslega sorglegt að horfa upp á að pólitískt framlag Katrínar sé að nýta það traust sem hefur verið borið til hennar sem fjarvistarsönnun fyrir fúski og spillingu, að hún verji hegðun sem er ekki réttlætanleg.“
Nánar er hægt að lesa um málið í Fréttablaðinu í dag.