Marilyn Monroe er vafalaust ein frægasta leikkona sögunnar og var helsta kyntákn sjötta áratugs síðustu aldar. Til þessa dags þekkir bæði yngra og eldra fólk nafn hennar og hefur séð af henni myndir, óháð því hvort þau hafi nokkru sinni horft á kvikmyndir hennar. Marilyn Monroe lést þann 5. ágúst 1962, aðeins 36 ára gömul, og var mikið fjölmiðlafár í kringum dauða hennar.
Samkvæmt Variety er framleiðslu lokið á nýrri heimildarmynd um hana, Marilyn, Her Final Secret, sem fjallar um leit stjörnunnar að föður sínum.
Leikstjóri myndarinnar, Francois Pomès, staðfesti í samtali við miðillinn að þeim hefði tekist að afhjúpa gamalt „fjölskylduleyndarmál“ um faðerni hennar með DNA-prófi.
Framleiðendur myndarinnar notuðu hár Marilyn – sem var tekið af manneskjunni sem smurði lík hennar árið 1962 – og báru það saman við munnvatn barnabarnabarns mannsins sem var talinn vera faðir hennar, Charles Stanley Gifford.
„Það sem snerti mig mest var að sjá viðbrögð Gifford fjölskyldunnar við þessu óhrekjanlega sönnunargagni,“ sagði Francois.
Heimildarmyndin kemur út í júní á frönsku sjónvarpsrásinni Toute l’Histoire.
Þetta er ekki eina myndin um Marilyn Monroe sem kemur út á næstunni. Streymisveitan Netflix mun gefa út heimildarmyndina The Mystery of Marilyn Monroe: The Unheard Tape þann 27. apríl næstkomandi.