fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Mikil óvissa í borgarpólitíkinni – Vinstrimúrinn stendur höllum fæti en gæti tórað

Ritstjórn DV
Laugardaginn 2. apríl 2022 11:31

mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Senn koma kosningar og nú liggja allir framboðslistar fyrir sem máli geta skipt í borginni. Er nú það helst til umræðu og mikið rætt hve lítið er rætt um kosningarnar. Áhugaleysi almennings er áþreifanlegt.

Engu að síður eru teikn á lofti.

Ljóst er að meirihluti Dags á enn og aftur undir högg að sækja. Meirihlutinn féll í síðustu kosningum og þurftu á Viðreisn að halda til að halda sér á floti. Varð þá þriggja flokka meirihlutinn í borginni að fjögurra flokka meirihluta.

Hugsanlegt er að fimmta flokkinn muni þurfa til ætli Dagur B. að gera átta ára borgarstjórasetu að tólf ára setu, og valkostirnir blasa ekki beint við. Þær fáu kannanir sem hafa verið birtar voru allar gerðar áður en framboðslistar nokkurra flokka lágu fyrir. Marktækni er þannig lítil, en kunna að gefa vísbendingu um í hvað stefnir.

Lítil endurnýjun hjá flestum

Prófkjör Sjálfstæðismanna fór fram um miðjan síðasta mánuð og hafa engar marktækar kannanir birst eftir það. Hildur Björnsdóttir, lögmaður og sitjandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hafði þar sigur gegn Ragnhildi Öldu Vilhjálmsdóttur, varaborgarfulltrúa. Að öðru leyti var nokkur endurnýjun á lista Sjálfstæðismanna. Kjartan Magnússon kom inn aftur eftir fjögurra ára útlegð. Þá er hópurinn sem raðast þar fyrir neðan nokkuð fjölbreyttur.

Vinstri græn tefla nú fram sama oddvita og síðast sem var sá eini sem náði inn árið 2018. Elín Oddný Sigurðardóttir, varaborgarfulltrúi sat í 2. sæti síðast en nú vermir Stefán Pálsson sagnfræðingur og skemmtikraftur það sæti.

Viðreisn teflir fram sömu borgarfulltrúum og síðast í sömu röð.

Sama má segja um Samfylkinguna, en efstu fimm sæti á lista hennar eru allir sitjandi borgarfulltrúar. Endurnýjunin er engin. Í sjötta sæti situr svo Guðný Maja Riba.

Vinstri meirihlutinn nú samanstendur sem fyrr segir af 12 fulltrúum af 23 í borgarstjórn og má því ekki miklu muna. Stærðfræðin hér er svo sem ekki flókin. Ætli Dagur að verða borgarstjóri áfram má enginn hinna fjögurra flokka missa svo mikið sem einn mann.

Haldi flokkarnir fjórir í sitt fylgi virðist áframhaldandi samstarf flokkanna fjögurra, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Pírata og Viðreisnar meitlað í stein.

Tveir leikir í stöðunni

Takist minnihlutanum að fella meirihlutann, eins og þau gerðu fyrir fjórum árum, er tvennt í stöðunni:

  1. Nýr meirihluti
  2. Fimmti flokkurinn í mixið

Byrjum á númer 2. Fimmti flokkurinn getur ekki verið Sjálfstæðisflokkurinn. Hann getur tæplega verið Miðflokkurinn, enda næsta víst að ferskasti framsóknarmaður landsins, Einar Þorsteinsson, steli þeim flestum. Miðflokkurinn á reyndar eftir að tilkynna lista að fráskildum þeim þremur nöfnum sem munu prýða þrjú efstu sætin. Ólíklegt er að nokkurt þeirra hafi  sömu burði til þess að vekja athygli á stefnumálum flokksins og Vigdís Hauksdóttir.

Eftir standa þá Sósíalistar, Framsókn og Flokkur fólksins. Það hefur ekki dulist neinum á síðasta kjörtímabili að langt sé í vináttu Kolbrúnar Baldursdóttur oddvita Flokksfólksins og Dags B. Eggertssonar. Innherjar með þekkingu á borgarstjórnarmálum sem rætt hafa við orðið segjast ekki sjá samstarf þeirra í kortunum.

Eftir stendur Framsókn, eins og svo oft áður. Akkerið á miðjunni.

Mikið hefur verið gert úr Sjálfstæðistengingu Einars Þorsteinssonar í fjölmiðlum frá því að hann tilkynnti um framboð sitt fyrir Framsóknarflokkinn. Þannig ætti engum að dyljast að pólitík Einars sveiflast til hægri. Hins vegar er fátt ef nokkuð komið frá Einari sem bent gæti til þess að hann og Hildur Björnsdóttir hafa myndað með sér bandalag. Þvert á móti raunar. Framsókn virðast ætla að ganga óbundnir til kosninganna líkt og Sjálfstæðismenn.

Viðreisn gæti staðið uppi með pálmann í höndunum

Þá virðast heimildarmenn Orðsins allflestir ósammála þeim greiningum sófasérfræðinga að Einar og Hildur muni bítast um sömu atkvæðin. Hildur og Sjálfstæðisflokkurinn munu væntanlega reyna að sýna fram á mögulegar breytingar á rekstri borgarinnar frá núverandi meirihluta og keyra á því að kominn sé tími á einmitt þær breytingar. Á meðan er búist við að barátta Framsóknar verði frekar miðuð að því að tefla fram nýjum hugmyndum sem útiloka hvorki hægri blokk né vinstri.

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut síðast átta fulltrúa og munaði litlu á níunda. Miðflokkurinn einn.

Og þá að númer 1.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf allavega að halda í núverandi fylgi sitt og tryggja sér átta eða níu fulltrúa og Framsókn þarf að stela meira en bara fylgi Miðflokksins ætli þeir tveir að vinna saman eftir kosningar.

Á það hefur jafnframt verið bent að sú spennandi staða gæti þá komið upp, að fjöldi fulltrúa Framsóknar og Sjálfstæðisflokks muni ekki duga til þess að mynda meirihluta, og munu þá Viðreisn sitja með pálmann í höndunum, enda eini flokkurinn sem spjátrungar og spekingar telja líklegan til þess að kljúfa sig til hægri úr vinstriblokkinni og tryggja Hildi og Einari nógu marga fulltrúa til að mynda meirihluta.

Gæti slík staða sett Þórdísi Lóu oddvita í klemmu, en sterk öfl innan hennar eigin flokks vilja sjá breytingar á borginni. Á sama tíma hefur samstarf Þórdísar og Dags bersýnilega gengið mjög vel. Þórdís gæti þannig þurft að velja á milli flokksfriðar og vinar síns Dags B. Eggertssonar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan