fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Fréttir

Sverrir ætlar að láta Sindra gjalda orða sinna – Eins og upphitun fyrir málaferli Ingós veðurguðs

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 3. apríl 2022 10:00

Sverrir Einar Eiríksson (t.v.) og Sindri Þór Hilmars- Sigríðarson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á morgun, mánudag, kl. 10:00, verður aðalmeðferð í fyrsta meiðyrðamálinu sem tengist þeirri bylgju Metoo-byltingarinnar sem hófst hér á landi í fyrra. Sverrir Einar Eiríksson, sem meðal annars er þekktur fyrir rekstur Vínbúðarinnar, stefnir þá Sindra Þór Sigríðarsyni, þekktum aktivista og feminista, fyrir meiðyrði. Málið er einnig áhugavert fyrir þær sakir að það hefur tengingu við væntanlegt meiðyrðamál tónlistarmannsins Ingólfs Þórarinssonar sem rekið verður í dómsal snemma í maí næstkomandi.

Rétt er að taka það skýrt fram að þó að málið tengist Metoo-byltingunni hefur Sverrir hvergi verið sakaður um kynferðisbrot eða kynferðislega áreitni. Málið er þannig til komið að Sindra blöskraði framganga Sverris í heitum umræðum um mál Kolbeins Sigþórssonar knattspyrnumanns síðastliðið haust. Vegna þeirrar framgöngu sakaði Sindri Sverri um að áreita og niðurlægja konur á internetinu. Einnig hélt Sindri því fram að Sverri þætti konur vera lítils virði og sæi ekki ástæðu til að hjálpa þeim „ef þær hleypa ekki uppá sig að launum“.

DV fjallaði um málið í haust í kjölfar þess að lögfræðingur Sverris sendi kröfubréf á Sindra. Krafðist Sverrir miskabóta frá Sindra upp á 1,5 milljónir króna, sem áttu að renna til Kvennaathvarfsins, og að hann bæðist afsökunar á eftirfarandi ummælum:

„Þetta er Sverrir. Sverrir á og rekur Nýju Vínbúðina. Sverrir eltir, áreitir og niðurlægir konur á internetinu. Konur sem berjast gegn kynferðisofbeldi. Meðlimi Öfga. Ekki vera eins og Sverrir.“

„Þetta er Sverrir. Sverri finnst konur svo lítils virði að hann sér enga ástæðu til að hjálpa þeim ef þær hleypa ekki uppá sig að launum. Ekki vera eins og Sverrir.“

Sverrir sendi DV eftirfarandi tilkynningu vegna málsins:

„Vegna kröfugerðar á hendur Sindra Þór Sigríðarsyni

Á síðustu dögum og vikum hefur átt sér stað mikil umræða um mál tiltekins knattspyrnumanns. Þó ekki sé deilt um að atvik hafi átt sér stað hefur ýmislegt komið fram í því máli sem að mínu mati á ekki við rök að styðjast.

Það er öllum frjálst að tjá sig um þau mál sem rædd eru opinberlega. Eðli málsins samkvæmt koma fram ólík sjónarmið þegar rætt er um svo alvarleg mál.

Það hefur hins vegar enginn rétt á því að ásaka aðra að tilefnislausu um andstyggilega og refsiverða háttsemi, líkt og Sindri Þór hefur gert gagnvart mér.

Ég sá mér því nauðugan þann kost að bera þau ummæli sem um mig hafa fallið af hans hálfu undir lögfróðan aðila og tel að þau séu þess eðlis að þau feli í sér meiðandi ummæli.

Allar bætur sem Sindri og þeir sem deildu þessum svívirðilegu ósannindum og ærumeiðingum renna óskiptar til Kvennaathvarfsins, ég fer einnig fram á að þessir aðilar leiti sér aðstoðar hjá Heimilsfrið og fræðist um ofbeldishegðun.

Ég hef ekki áhuga á því að kljást við viðkomandi aðila í gegnum fjölmiðla og set málið því í þennan farveg.“

Sindri sagði freka karlinn ekki skynja breytt umhverfi

Þegar DV óskaði eftir viðbrögðum Sindra við kröfubréfi Sverris svaraði hann með eftirfarandi yfirlýsingu:

Ég hef horft upp á Sverri á samfélagsmiðlum dag eftir dag áreita og hræða konur sem ekkert hafa gert annað en hafa hátt í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Á þetta hef ég bent og á þetta mun ég halda áfram að benda á meðan menn eins og Sverrir halda uppteknum hætti.

En freki karlinn er auðvitað óvanur því að honum sé andmælt. Að hann fái ekki að komast upp með hvað sem er. Þannig hefur Sverrir nú ákveðið að bregðast við með hótunum í von um að þagga niður í þeim sem benda á þessa eitruðu hegðun. En freki karlinn er ekki að sjá að umhverfið er að breytast. Svona yfirgangur og þöggunartilburðir bíta ekki eins og áður. Sverrir er ekki fyrsti freki karlinn til að reyna þetta gegn mér og vafalaust ekki sá síðasti. Það hefur ekki virkað áður, það mun ekki virka hjá Sverri og það mun ekki virka í framtíðinni.

Meira hef ég ekki um þetta að segja.“

Sakaður um að hafa vegið gróflega að æru Sverris

DV hefur stefnu málsins undir höndum. Þar hefur verið bætt við einum ummælum og er Sindri kærður fyrir þrenn ummæli, þessi:

„Þetta er Sverrir. Sverrir á og rekur Nýju Vínbúðina. Sverrir eltir, áreitir og niðurlægir konur á internetinu. Konur sem berjast gegn kynferðisofbeldi. Meðlimi Öfga. Ekki vera eins og Sverrir.“

„Þetta er Sverrir. Sverri finnst gaman að áreita konur á samfélagsmiðlum og þess vegna eru fáir að fylgja honum. En einn þeirra sem er fylgjandi Sverri og hans aðferðum er Tómas Þóroddsson, sérlegur Ingó-vinur og fráfarandi stjórnarmaður KSÍ. Ekki vera eins og þeir.“

„Þetta er Sverrir. Sverri finnst konur svo lítils virði að hann sér enga ástæðu til að hjálpa þeim ef þær hleypa ekki uppá sig að launum. Ekki vera eins og Sverrir.“

Í stefnunni er fullyrt að Sindri hafi vegið gróflega að æru Sverris og ummælin feli meðal annars í sér ásakanir um saknæmt athæfi. Ummælin séu röng, óviðurkvæmileg og til þess fallin að valda Sverri mannorðsskaða og álitshnekki. „Framangreindar ærumeiðingar og aðdróttanir telur stefnandi sérstaklega alvarlegar þar sem stefndi fullyrðir að stefnandi stundi það að áreita og hræða konur,“ segir í stefnunni.

Sverrir krefst þriggja milljóna króna af Sindra vegna ummælanna auk málskostnaðar. Eiga þeir fjármunir að renna allir til Kvennaathvarfsins. Einnig krefst hann ómerkingar ummælanna. Jafnframt krefst hann þess að Sindri borgi honum „hæfilega fjárhæð“ svo Sverrir geti staðið straum af kostnaði við birtingu dómsins.

Sindri þarf að verjast Ingó veðurguð í maí

Sindri á í vændum annað meiðyrðamál því hann er einn þeirra sem Ingólfur Þórarinsson tónlistarmaður hefur stefnt vegna ummæla um sig sumarið 2021.

Ummælin sem Ingólfur stefnir Sindra fyrir eru eftirfarandi:

  1. Maður sem er svo þekktur fyrir að ríða börnum…
  2. Hvað finnst þér réttlætanlegt að fullorðinn maður nýti frægð sína og valdastöðu til að ríða mörgum börnum…
  3. Skemmtikraftur sem hefur stundað það síðastliðin 12-13 ár að ríða börnum…

Eins og DV greindi frá þann 18. júlí 2021 hefur Sindri engar áhyggjur af málshöfðun Ingós gegn sér. Hann segist ekki hafa sakað Ingó um saknæmt athæfi þar sem samræði við 16 ára börn sé ekki ólöglegt. Sindri segir um þetta:

„Á Íslandi er hver manneskja undir 18 ára aldri „barn“ í skilningi laga. Að sofa hjá, ríða jafnvel, barni sem fullorðin manneskja er ekki brot á almennum hegningarlögum nema í undantekningartilvikum, svo lengi sem barnið hefur náð 15 ára aldri. Sú sturlaða staðreynd er svo efni í annað Ted Talk, en látum það vera í bili,“ segir Sindri í færslunni. „Sveinn Andri barnaði 16 ára stúlku þegar hann var 47 ára og taldist vera í fullum rétti í skilningi laganna. Ég þori að hengja mig upp á að bæði Ingólfur og Vilhjálmur viti vel hvenær má ríða barni og hvenær ekki.“

Sindri vísar þarna til Vilhjálms Vilhjálmssonar, fyrrverandi lögmanns Ingós, en annar lögmaður mun reka málið fyrir héraðsdómi í maí. Sindri sagðist ennfremur hlakka til þeirra réttarhalda:

„Ástæðan fyrir því að ég segist hlakka til að mæta Ingólfi í dómssal er að ég er með 100 kommenta twitter þráð og inbox fullt af skilaboðum með vitnisburði um hans hegðun síðastliðin ár. Ég hef engar áhyggjur af því að honum eða Vilhjálmi takist að sýna að ég hafi sakað Ingólf um refsiverðan verknað. Ég einfaldlega gerði það ekki. En ég iða af tilhlökkun að sjá hann reyna að sýna fram á að ég hafi sagt ósatt og gera þá í leiðinni allar þessar sögur að opinberum dómsskjölum, ævinlega tengdum nafni hans. Þegar Ingólfi rennur heiftin mætti hann íhuga hvenær gröfin sem hann grefur sér er orðin nógu djúp.“

DV verður í dómsal

Eins og fyrr segir verður aðalmeðferð í máli Sverris gegn Sindra í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudagsmorguninn og hefst kl. 10. DV verður á staðnum, mun greina frá því sem fram fer og birta fréttir beint úr dómsal.

Uppfært sunnudag kl. 12:22 – frestun

Málinu hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna veikinda lögmanns Sindra Þórs.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað
Fréttir
Í gær

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir