Söngvarinn Aaron Ísak Berry, sem nýlega fékk dóm fyrir kynferðisbrot gegn þremur 12 ára drengjum, mætti síðastliðið fimmtudagskvöld í félagsstarf Hins hússins. Starfið er ætlað fötluðum unglingum og ungmennum á aldrinum 16 til 25 ára. Sjálfur er Aaron Ísak 24 ára. Flestir einstaklingarnir sem sækja þetta starf eru með liðveislu en Aaron Ísak mætti einn síns liðs og án eftirlits. Hann var einnig með snjallsíma meðferðis en kynferðisbrot hans voru að miklu leyti, en þó ekki eingöngu, í gegnum rafræn samskipti.
Sem fyrr segir var Aaron Ísak fundinn sekur um kynferðisbrot gegn þremur 12 ára drengjum og dæmdur til að greiða þeim miskabætur. Hins vegar var það niðurstaða dómsins að gera honum ekki refsingu þar sem talið var að vegna ástands hans myndi refsing ekki skila árangri. Er honum hins vegar gert skylt að sæta eftirliti yfirlæknis réttargeðdeildar Landspítalans á Kleppi sem og meðferðar sálfræðinga.
Foreldrum nokkurra skjólstæðinga Hins hússins var illa brugðið er þau fréttu að Aaron Ísak hefði mætt í félagsstarfið hjá Hinu húsinu algjörlega án eftirlits. Sem fyrr segir eru ungmennin sem þetta starf sækja með liðveislu en hægt er að sækja um undanþágu frá liðveislu eftir að þau hafa náð 20 ára aldri.
Foreldrunum finnst rangt bæði gagnvart Aaron Ísak og hinum ungmennunum að hann sé eftirlitslaus á samkomu sem þessari þar sem mjög viðkvæmir einstaklingar eru samankomnir. Í niðurstöðu dómsins yfir Aaroni Ísak kom fram að hann er með sögu um einhverfu og kvíðaröskun frá barnæsku. Samkvæmt sálfræðimati er hann talinn tornæmur, auk þess að glíma við átröskun. Foreldrar sem DV hefur rætt við telja að sé Aaron Ísak á mannamótum meðal unglinga án liðveislu sé það mjög rangt bæði gagnvart öðrum ungmennum og honum sjálfum, enda þurfi hann á liðveislu og eftirliti að halda.
Mjög vel hefur verið látið af þessu starfi Hins hússins fyrir fötluð ungmenni. Er það sagt hafa bjargað mörgum unglingum í vanda og styrkt þau mjög félagslega.
Samkvæmt heimildum DV hafa starfsmenn Hins hússins nú lagt bann við því að Aaron Ísak mæti í félagsstarfið á fimmtudagskvöldum. Er bannið til komið vegna frétta um dóm yfir honum vegna kynferðisbrota.