Þessar spurningar lagði Jótlandspósturinn fyrir André Ken Jakobsson, hjá Syddansk háskólanum, sem rannsakar stríðsrekstur nútímans. Hann sagði að hætta sé á að það komi þreyta yfir fólk hvað þetta varðar og það sé hættulegt ef það gerist.
Hann sagði að stríðið í Úkraínu geti kostað fleiri mannslíf en ella ef Vesturlönd gleyma því og það sagðist hann óttast að sé að gerast að einhverju leyti. Það sé einmitt ástæðan fyrir að Volodymyr Zelenskyy, forseti, sé duglegur við að þiggja boð um að ávarpa þjóðþing á Vesturlöndum. Með því haldi hann áhuga Vesturlanda lifandi og um leið geti hann minnt stjórnmálamenn á loforð þeirra. „Við höfum jú séð sum stríð sem gleymast bara, þannig séð. Það er ákveðin hætta á að það gerist einnig með Úkraínu,“ sagði Jakobsson.
Þegar „Google Trends“ er notað til að greina áhuga netnotenda á stríðinu sést að áhugi heimsbyggðarinnar hefur minnkað mikið ef miðað er við hversu oft leitað er eftir orðunum, „Úkraína“, „Rússland“ og „Pútín“. Google mælir áhugann á skalanum 0 til 100. Á fyrsta degi innrásarinnar var hann 100 en nú er hann kominn undir 10.
„Það er hætta á að á einhverjum tímapunkti gefumst við upp og segjum: „Þá verða þeir bara sjálfir að berjast í stríðinu í Úkraínu,“ sagði Jakobsson og bætti við að það skipti öllu varðandi varnir Úkraínumanna hver áhugi almennings á stríðinu sé. Bæði vegna þess að þeir þurfa vopn frá Vesturlöndum en einnig þurfi þeir að finna fyrir mórölskum stuðningi til að halda baráttuandanum við.
Hann sagði að ýmislegt bendi til að stríðið verði langvarandi og að það sé það sem Rússar séu að undirbúa sig undir. Ef þeir færi stigið ekki á enn hærra stig, til dæmis með notkun efnavopna, verði líklega bara einn langur fréttastraumur af hörmungunum og að því miður verði fólk ónæmt fyrir þeim fréttum.
Hann sagðist gruna að Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, sé einmitt að reyna að fá áhuga fólks á stríðinu til að dvína, eins og gerðist 2014 þegar Rússar hertóku Krím.
„Þegar við sjáum að Rússar tilkynna að þeir séu ekki lengur með sömu kröfur eða að þeir muni beina hernaði sínum að Donbas, þá túlka ég það sem tilraun til að draga úr alvarleika stríðsins og þar með draga úr áhuga almennings,“ sagði hann og bætti við að þessu verði fjölmiðlar og almenningur að vera vakandi fyrir: „Það er stríði í gangi um söguna og ef það er hægt að vinna það með því að þetta séu „bara“ langvarandi átök, þá dregur úr pólitískum stuðningi við Úkraínu. Þetta er einmitt það sem ég held að Rússarnir séu að vonast eftir.“