Dularfull skjáskot vöktu töluverða athygli á samfélagsmiðlum í gær. Skjáskotin eiga að vera af samskiptum Eddu Falak, aktívista og hlaðvarpsstjórnanda með meiru, og Facebook-síðu Fréttin.is, vefsíðu sem er í umsjón Margrétar Friðriksdóttur. Skjáskotin hafa verið í talsverðri dreifingu og meðal annars birst á Facebook-síðu Brask og Brall.
Í skjáskotunum virðist sem Edda Falak sé í samskiptum við Fréttina til að biðja um að færsla um sig sé tekin út af vefsíðu þeirra. Þá á Edda að hafa í hótunum um að gera Margréti að fréttamat ef hún verður ekki við bóninni. „Ég er sleggjan og dómari og þú veist það vel,“ á Edda til að mynda að hafa sagt.
Þrátt fyrir að í fyrstu virðist kannski vera sem að um raunveruleg samskipti sé að ræða er nokkuð ljóst að svo er ekki. DV hafði samband við Eddu vegna málsins og hafði upp úr því raunveruleg skjáskot af samskiptum hennar, bæði við Facebook-síðu Fréttarinnar og við Margréti. Í þeim var ekkert í líkingu við það sem sjá má í fölsuðu skjáskotunum.
Til að ganga úr skugga um að skjáskotin væru örugglega fölsuð hafði DV einnig samskipti við Margréti Friðriksdóttur vegna málsins. Þar bar þó upp annan tón þar sem hún taldi að um raunveruleg samskipti væri að ræða. Hún segir í samtali við DV að skilaboðin komi frá aðgangi sem virðist vera raunverulegur aðgangur Eddu.
Þetta vakti furðu blaðamanns og sáði þeim efasemdarfræjum að kannski væri um raunveruleg skjáskot að ræða. Sá möguleiki varð þó að engu eftir stutta stund eða þegar Margrét sendi skjáskot af samskiptum sínum við Eddu.
Í þeim samskiptum sendi „Edda“ skjáskot af skilaboðum sínum við blaðamann og sagði að það væri „fallegt að eiga góðan vin í fjölmiðlum landsins“. Blaðamaður er handviss um að skjáskotið af samskiptum Eddu við blaðamannin eru fölsuð og það er einföld ástæða fyrir því:
Skjáskotin áttu að vera af samskiptum Eddu við blaðamanninn sem heldur hér á penna eða öllu heldur lyklaborði.
Það er því deginum ljósara að ekki er um raunveruleg skjáskot að ræða heldur furðulegan og nokkuð misheppnaðan blekkingarleik. Ljóst er að nokkuð auðvelt er orðið að falsa Messenger samskipti á sannfærandi hátt.
Falsaða skjáskotið af þessum meintu samskiptum „Eddu“ og blaðamannsins sem hér skrifar má sjá hér fyrir neðan. Þá má einnig sjá skjáskot af raunverulegum samskiptum Eddu og blaðamanns. Í þeim hafði blaðamaður haft samband vegna ábendingar fyrir litla og ómerkilega slúðurfrétt. Vinskapurinn við Eddu er þó ekki meiri en svo að hún hvorki svaraði honum né las skilaboðin.