Ólöf Tara Harðardóttir, þjálfari og ein af stjórnarkonum Öfga, er nýjasti gestur í hlaðvarpinu Eigin konur sem er í umsjón Eddu Falak, aktívista og hlaðvarpsstjórnanda með meiru. Hægt er að nálgast þáttinn á Patreon-síðu hlaðvarpsins.
Í viðtalinu bera þær Ólöf og Edda saman bækur sínar en þær hafa báðar orðið fyrir miklu áreiti og fengið haug af hótunum vegna baráttu þeirra gegn ofbeldi. „Ég persónulega fæ alveg mikið af einhverjum svona hótunum. Bara verið að hóta mér að ef ég held áfram þá gerist þetta og hitt,“ segir Edda og spyr Ólöfu hvort hún og hinir meðlimir Öfga lendi líka í því.
„Mjög mikið,“ segir Ólöf og útskýrir svo frá hverjum þær fá hótanirnar. „Mjög mikið frá nafnlausum aðgöngum, aðstandendum gerenda og líka bara mikið frá svona reiðum ungum strákum. Maður veit stundum ekki hvort þeir átti sig á alvarleikanum sem felst í því að senda svona ógeðsleg skilaboð eða að skilja eftir svona ógeðslegar athugasemdir.“
Ólöf bendir á að það er ekkert sniðugt við að láta svona hluti út úr sér á netinu. „Þetta er ekkert sniðugt. Þú skilur þetta netspor eftir þig og ert jafnvel síendurtekið að skilja eftir þig netspor sem er uppfullt af kvenhatri. Þetta er ógeðslegt,“ segir hún.
„Ég hef oft hugsað hvaðan þetta er að koma, mig langar svo að skilja það. Hvaðan eru þetta að koma, af hverju eru þau með þetta viðhorf og af hverju eru þau svona ótrúlega reið út í baráttu fyrir réttindum, mannréttindum. Þá hugsar maður að kannski er pabbinn karlremba og kannski finnst mömmunni konur bara vera klikkaðar. “
Ólöf og Edda fara út um víðan völl í þættinum en þegar líður að lokum þáttarins fara þær að ræða um það hvort þær kæri eða tilkynni hótanirnar sem þær fá. Ólöf hlær þegar Edda spyr hana út í þetta og svarar neitandi. „Ég geri það sko, ég kæri eða tilkynni þetta til lögreglu. Sumt eru bara beinar hótanir sem maður íhugar að kæra en allt áreiti og allar svonar hótanir og svona „stalker vibes“ og þannig tilkynni ég,“ segir Edda þá.
Í kjölfarið opnar Edda sig um það þegar hún þurfti að hringja í lögregluna því hún óttaðist að einhver væri að reyna að komast inn á heimilið hennar. Ástæðan fyrir óttanum er sú að Edda hafði fyrir þetta verið að fá mikið af hræðilegum hótunum.
„Ég lenti í því um daginn að ég var búin að vera að fá ógeðslega mikið af líflátshótunum og það var verið að hóta að nauðga mér og eitthvað svona. Svo gerist það bara að ég er heima hjá mér ein, húsið er á fjórum hæðum og ég er ein í húsinu. Það er allt í einu bara dinglað á fullu, bara dinglað og dinglað og bankað og bankað og bankað og dinglað – klukkan var svona 10 um kvöld. Þetta var bara daginn eftir að ég hafði fengið allar þessar líflátshótanir, var búin að koma fram í sjónvarpinu og segja frá þessu.“
Edda segist næstum því hafa fengið taugaáfall við þetta. „Ég beið í smá stund en þetta heldur áfram, það er bara bankað og bankað og dinglað og dinglað. Ég hleyp upp og næ í símann, er bara að fela mig á gólfinu, og hringi í lögregluna. Lögreglan svarar og svo byrjar þetta bara aftur, það er verið að banka og dingla, það er einhver að reyna að komast inn,“ segir hún.
Á Instagram-síðu hlaðvarpsþáttarins birtir Edda brot úr þættinum en í brotinu má heyra símtal Eddu við neyðarlínuna. „Lögreglan ætlar að senda bíl en síðan bara hættir þetta. Ég er með lögregluna í símanum og segi þeim að þetta sé hætt,“
„Þarna hugsaði ég bara að það er ekkert sem ég hefði getað gert. Ég var ein í risastóru húsi, ég gat hvergi falið mig ef þeir hefðu komið inn. Maður hugsar oft „ég er alveg ágætlega sterk, ég er búin að vera í bardagaíþróttum“, maður hugsar að maður geti pakkað þessu liði saman. En þarna var ég lömuð af ótta. Ég lá bara í gólfinu og það var ekkert í veröldinni sem ég hefði getað gert.“
View this post on Instagram