fbpx
Mánudagur 24.febrúar 2025
Fréttir

Klúður í dómsal: Slapp við dóm vegna „meingallaðrar“ lögregluskýrslu – Löggan vísaði til myndbands sem fannst svo ekki

Ritstjórn DV
Laugardaginn 26. mars 2022 11:00

mynd/samsett DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði í gær karlmann af ákæru Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að hafa tekið án ökuréttinda um Seljaveg í Breiðholti septemberkvöld eitt árið 2020.

Dómurinn er um margt merkilegur, enda sjaldgæft að menn séu sýknaðir vegna válegra vinnubragða lögreglunnar og enn sjaldgæfara að þeirra sé getið með beinum hætti með skrifuðum hætti í dómum íslenskra dómstóla.

Sem fyrr sagði hófst málið að kvöldi föstudagsins 11. september í Breiðholtinu með afskiptum lögreglu af manninum og konu sem stödd var í eða við bílinn. Samkvæmt skýrslum og framburði lögreglumanna fyrir dómi stöðvaði lögreglan akstur bifreiðarinnar og reyndist maðurinn sitja í framsæti bifreiðarinnar og hafði hann neytt áfengis. Fyrir liggur að maðurinn var þá án ökuréttinda, en hann hafði áður verið sviptur ökuréttindum með dómi.

Kváðu lögreglumennirnir að þeir hefðu komið að honum þar sem hann sat í bílstjórasæti bílsins og útilokuðu að nokkur annar hefði ekið bílnum. Vísu þeir jafnframt í skýrslu sína af vettvangi og myndbandsupptökur frá þessu kvöldi, enda mundu þeir hvorugir sérstaklega eftir atburðum þessa kvölds og kynntu þeir sér því fyrrgreinda vettvangsskýrslu í gagnagrunni áður en þeir gáfu skýrslu fyrir dómi.

Framburður lögreglumanna sagður óáreiðanlegur

Maðurinn neitaði sök og sagði fyrir dómi að hann og konan hefðu komið akandi að heimili hennar að Engjaseli og að hún hefði ekið bílnum. Þau hefðu farið úr bílnum og verið að labba inn í húsið þegar hann hefði áttað sig á því að hann hefði gleymt einhverju í bílnum og snúið við. Bifreiðin hefði þannig verið kyrrstæð þegar lögreglan kom að þeim og sakaði hann um að hafa ekið bílnum.

Lögmaður mannsins, Sveinn Andri Sveinsson, hélt því þá fram fyrir hönd ákærða að framburður lögreglumannanna væri óáreiðanlegur enda byggður af „seinni tíma ályktunum sem þeir [lögreglumennirnir] dragi af meingallaðri vettvangsskýrslu,“ eins og framsaga lögmannsins er orðuð í dómnum.

Skýrslan meingölluð

Þá benti lögmaðurinn á fjölmarga galla í stöðluðu eyðublaði sem lögreglumennirnir fylltu út. Sagði hann annan lögreglumanninn hafa nefnt bílastæðið við Engjasel, en annar sagt á Engjaselsvegi. Þá sagði annar lögreglumaðurinn fyrir dómi að konan hefði setið í farþegasætinu, en hennar er hvergi getið í lögregluskýrslunni. Enn fremur liggur ekkert fyrir um það hvernig manninum var kynt efni skýrslunnar sem hann undirritaði, en hann hafði að eign sögn neytt áfengis og talaði aðeins bjagaða íslensku. Né heldur liggur það fyrir hvort og þá hvernig manninum var kynnt réttarstaða sín sem sakborningur.

Benti loks lögmaðurinn á að myndbandið sem lögreglumennirnir sjálfir vísa til hafi ekki fundist í geymslum lögreglu og liggi því ekki fyrir. „Ákæruvaldið hafi þannig týnt sönnunargagni númer eitt í málinu og með því gert ákærða útilokað að sýna fram á sakleysi sitt,“ segir í dómnum.

Klúðrið kostaði 418 þúsund krónur

Í niðurstöðu dómsins  er að mestu tekið undir orð lögmannsins um ágalla í málatilbúnaði lögreglu. Segir í dómnum:

Ákæru til grundvallar liggur aðeins vettvangsskýrsla lögreglumanna A og B. Skýrsla  er rituð á staðlað  A4  eyðublað sem er hannað fyrir hraðakstursbrot og hraðamælingar með ratsjá en getur hæglega nýst vegna annarra umferðarlagabrota. Efst í skýrslunni er handritað: „Akstur sviptur ökuréttindum 58. gr.” Þar fyrir neðan eru færðar inn upplýsingar um ákærða og […] aðstæðum og akstursskilyrðum á vettvangi lýst með því að haka með x-i í viðeigandi reiti. Þar á eftir er staðlaður texti „ökumaður ók“, línubil gefið til útfyllingar og þar á eftir „á vegarkafla“ og annað línubil gefið. Á fyrra línubilinu er handritað „Engjasel“ en ekkert skráð um vegarkafla. Þá er ekki fyllt út í staðlaða reiti, með x-i, hvar lögreglubifreiðin var staðsett þegar meint brot var framið, svo sem hvort hún hafi verið  kyrrstæð  eða  ekið á eftir eða á móti bifreið ákærða. Af skýrsluforminu er ljóst að lögreglumönnunum hefði  verið hægur vandi að útfylla eyðublaðið af meiri nákvæmni, ekki síst þegar litið er til þess að þeir ræddu við vitnið C á bílastæði fyrir utan heimili hennar að Engjaseli […],  þar sem bifreiðinni […] var sannanlega lagt. Eftir stendur veruleg óvissa um hvar lögregla eigi að hafa stöðvað för ákærða. Fyrir dómi bar lögreglumaður A að þetta hafi gerst á eða við bílastæði fyrir utan ótilgreinda blokk á meðan lögreglumaður B gat ekkert borið um sama atriði. Framburður lögreglumanns A er að því leyti samrýmanlegur framburði ákærða að lögregla hafi haft afskipti af honum á bílastæði fyrir utan einhverja blokk.

Um hvarf myndbandsupptökunnar segir þá jafnframt: „Sú staðreynd að myndbandið liggur ekki fyrir gerir þannig út um möguleika ákærða á að halda uppi réttmætum vörnum í málinu og ber ákæruvaldið hallann af því.”

Að þessu virtu og gegn eindreginni neitun ákærða var maðurinn sýknaður í héraðsdómi og ríkinu gert að greiða málsvarnarkostnað hans, 418 þúsund krónur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Tóku af tryggingunni vegna dularfullra „skemmda“ sem ekki fengust skýringar á

Tóku af tryggingunni vegna dularfullra „skemmda“ sem ekki fengust skýringar á
Fréttir
Í gær

Verslunareigandi með skilaboð til barnungra innbrotsþjófa – Komið og vinnið í einn, tvo daga og málið fer ekki til lögreglu

Verslunareigandi með skilaboð til barnungra innbrotsþjófa – Komið og vinnið í einn, tvo daga og málið fer ekki til lögreglu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta ætlar nýr meirihluti í borginni að gera

Þetta ætlar nýr meirihluti í borginni að gera
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spyr hvort Íslendingar séu þröngsýnni en fyrir 30 árum

Spyr hvort Íslendingar séu þröngsýnni en fyrir 30 árum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þóra Kristín kemur Þorgrími til varnar og gagnrýnir Huldu – „Kona sem kallar karlmann sem tjáir sig um börn ómenntaða risaeðlu“

Þóra Kristín kemur Þorgrími til varnar og gagnrýnir Huldu – „Kona sem kallar karlmann sem tjáir sig um börn ómenntaða risaeðlu“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Aukin hætta á eldgosi: Reikna með mjög stuttum fyrirvara

Aukin hætta á eldgosi: Reikna með mjög stuttum fyrirvara