fbpx
Mánudagur 24.febrúar 2025
Fréttir

Árni er faðir 9 ára langveikrar og fatlaðrar stelpu – „Þyngra en tárum taki að hún hafi ekki val“

Máni Snær Þorláksson
Föstudaginn 25. mars 2022 10:30

Árni Björn og dóttir hans.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árni Björn Kristjánsson, sem skipar fjórða sæti á lista Viðreisnar í Garðabæ, er ósáttur með það hvernig stutt er við fatlað fólk í bænum. „Flestir myndu ætla að sveitarfélag eins og Garðabær, sem býr við traustan og góðan fjárhag, myndi leggja sig fram við að tryggja fötluðum þennan rétt til sjálfstæðs lífs. Öllum fötluðum Garðbæingum,“ segir Árni í pistli um málið sem birtist á Vísi í dag.

Í pistlinum minnir Árni á að þjónusta við fatlað fólk eigi að miða að því að fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að geta notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og að því séu sköpuð skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. „Þetta er ekki bara skoðun Viðreisnar í Garðabæ á góðri þjónustu, heldur eru þessi skilyrði bundin í lög, samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir,“ segir hann.

„Þyngra en tárum taki“

Árni þekkir málefni fatlaðs fólks vel þar sem hann er faðir 9 ára langveikrar og fatlaðrar stelpu. „Hún er dásamleg stúlka sem langar að gera svo margt, eins og aðrar 9 ára stúlkur. Hana langar að leika sér með vinkonum sínum og æfa íþróttir,“ segir hann í pistlinum.

Dóttir Árna er með metna stuðningsþörf upp á 720 klukkutíma á mánuði en það besta sem Garðabær getur boðið henni eru einungis 300 klukkutímar. „Dóttir mín fær því aðeins 42% af þeim tíma sem mat á stuðningsþörf nær yfir,“ segir Árni.

„Hún fær aðeins 42% af nauðsynlegri þjónustu til að aðstoða hana við að sinna hversdagslegum athöfnum daglegs lífs og taka þátt í samfélaginu sem sjálfstæður einstaklingur. Til þess að fylla upp í þá þjónustu sem hún þarf á að halda verður að treysta á stuðning frá foreldrum og öðrum ættingjum.“

Árni útskýrir þá að dóttir hans þarf stuðning í flestum daglegum athöfnum. „Dóttir mín klæðir sig ekki sjálf, borðar ekki sjálf, fer ekki á klósettið sjálf, leikur sér ekki sjálf, kveikir ekki á sjónvarpinu sjálf og listinn heldur áfram. Ef hún vill æfa íþrótt þá þarf hún stuðningsmanneskju, ef hún vill leika við vinkonur sínar þá þarf hún stuðningsmanneskju,“ segir hann.

„Því er það þyngra en tárum taki að hún hafi ekki val um að gera það sem hún vill á sínum forsendum því úthlutuðum tímum í þjónustu dugar ekki til.“

Óuppfærð stefna

Stefnu Garðabæjar í málefnum fatlaðs fólks er að finna á vef sveitarfélagsins. Í stefnunni er vísað í lög nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Umrædd lög voru felld úr gildi árið 2018 og furðar Árni sig á því að stefnan hafi ekki verið uppfærð síðan þá. „Hvers vegna stefna sveitarfélagsins hefur ekki verið uppfærð er engin leið að skilja,“ segir hann.

„Það ætti að vera Garðabæ mikilvægt að gefa réttar upplýsingar um á hverju þjónusta við íbúa er byggð. Helstu skilaboðin sem hægt er að lesa úr þessari úreltu stefnu eru að innan núverandi meirihluta sé ekki mikill áhugi á málefnum fatlaðra í sveitarstjórnarpólitíkinni, þar sem stefnan er sköpuð.“

Í lok pistilsins segir Árni að það sé kominn tími til þess að Garðabær fari að virða þann rétt sem fatlaðir eiga til að lifa sjálfstæðu lífi. „Að stefna sveitarfélagsins endurspegli breytta tíma og viðhorf til fatlaðra,“ segir hann.

„Þess vegna hef ég tekið 4. sæti á lista Viðreisnar fyrir komandi kosningar.“

„Við munum ekki gefast upp“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Árni berst fyrir réttindum dóttur sinnar. Árið 2020 ræddi hann við DV um baráttuna fyrir því að fá notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) fyrir dóttur sína svo hún geti betur lifað eigin lífi.

„Þó svo að hún sé barn þá er hún með sjálfstæðar hugsanir og vill gera ákveðna hluti en eins og staðan er núna þá getur hún ekki gert neitt á sínum forsendum.“

Fjölskyldan sótti um NPA í mars 2019 og var enn að bíða eftir almennilegum svörum frá sveitarfélaginu þegar viðtalið var tekið.

„Við munum ekki gefast upp fyrr en hún fær þau grundvallarmannréttindi sem öllum eiga að vera tryggð,“ sagði Árni Björn.

Sjá meira: Árni Björn ætlar ekki að gefast upp – Vill betra líf fyrir dóttur sína:„Þetta virðist vera blákaldur raunveruleikinn á Íslandi“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslendingar lýsa hvernig þeir svindluðu á prófi – „Að sitja fremst þýddi líka að kennarinn grunaði mig aldrei“

Íslendingar lýsa hvernig þeir svindluðu á prófi – „Að sitja fremst þýddi líka að kennarinn grunaði mig aldrei“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dóri DNA á tímamótum – „Það vorkennir manni enginn“

Dóri DNA á tímamótum – „Það vorkennir manni enginn“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fjörugar athugasemdir eftir kvörtun miðborgarbúa vegna hávaða, hrópa og úrgangslosunar – „Costco er bæði með partýbleyjur og poka“

Fjörugar athugasemdir eftir kvörtun miðborgarbúa vegna hávaða, hrópa og úrgangslosunar – „Costco er bæði með partýbleyjur og poka“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Börnum í Breiðholtsskóla stíað í sundur – „Reyndur skólamaður“ ráðinn til að taka á ástandinu

Börnum í Breiðholtsskóla stíað í sundur – „Reyndur skólamaður“ ráðinn til að taka á ástandinu