Það hefur einnig ýtt undir áhyggjur marga að Rússar hafa að undanförnu sakað Bandaríkin og Úkraínu um að hafa unnið að gerð efnavopna í Úkraínu og hafa sagt að þar séu efnavopn geymd. Þessu vísa bæði Bandaríkin og Úkraína á bug. Þessar ásakanir Rússa eru að sumra mati undanfari efnavopnanotkunar þeirra, þeir séu með þessu að skapa sér átyllu til að nota efnavopn og muni síðan jafnvel saka Úkraínumenn og Bandaríkjamenn um að hafa notað þau og neita sjálfir sök.
Joe Biden, Bandaríkjaforseti, er í Evrópu þessa dagana til að ræða við forystufólk bandalagsríkja Bandaríkjanna í álfunni um stríðið í Úkraínu og viðbrögðin við hernaði Rússa.
Hann ræddi við fréttamenn í gær að loknum fundum leiðtoga NATÓ-ríkjanna og G7 í Brussel. Hann varaði Rússa þá við og sagði að ef þeir beiti efna- eða lífefnavopnum í Úkraínu muni NATÓ bregðast við það og verði viðbrögðin í samræmi við alvarleika þess sem Rússar geri. Hann vildi ekki staðfesta að gripið yrði til hernaðar en útilokaði það ekki.
Hann sagðist einnig vilja að Rússum verði vikið úr G20, sem er hópur helstu efnahagsvelda heimsins, en sagði það ómögulegt vegna andstöðu Indónesíu og fleiri ríkja.
Biden og fleiri vestrænir leiðtogar óttast að Pútín muni reyna að binda enda á stríðið í Úkraínu með notkun efna- eða lífvopna eða jafnvel kjarnorkuvopna. Í vikunni bárust fréttir af því að Biden hefði sett upp sérstakt teymi „Tiger Team“ til að vinna að tillögum um viðbrögð Bandaríkjanna ef Rússar grípa til slíkra örþrifaráða.