Úkraínska leyniþjónustan, SBU, hefur birt hlerað samtal á Facebooksíðu sinni. Það er á milli rússnesks herforingja í fremstu víglínu og yfirmanna hans í Moskvu. Óhætt er að segja að samtalið dragi upp aðra mynd af stríðsrekstri Rússa en þeir segja opinberlega.
Í samtalinu segir herforinginn að stríðið sé „verra en í Téténíu“ en það þykir benda til að rússnesku hersveitirnar eigi erfitt með að fá nýja hermenn í stað þeirra sem hafa fallið. Hann kvartar einnig yfir því að helmingur hermannanna í herdeild hans séu með kalsár á fótum.
Í skýrslu frá bresku hugveitunni Rusi kemur fram að njósnir og upplýsingaöflun bendi til að rússnesku hersveitirnar glími við fjarskiptavandamál og því reyni hermenn að leysa úr þeim á óhefðbundinn hátt, til dæmis með því að nota farsíma sína og talstöðvar sem bjóða ekki upp á dulkóðuð samskipti.
Það virðist sem töluvert skorti upp á að búnaður rússnesku hermannanna sé nægilega góður fyrir aðstæðurnar í Úkraínu en myndir hafa verið birtar af rússneskum hermönnum í stolnum úkraínskum hermannastígvélum. Það bendir til að Rússunum finnist eigin stígvél ekki nægilega góð til að halda kuldanum frá fótunum.
Fyrrnefndur herforingi er talinn vera nærri Mykolaiv við Svartahafið en Rússar eru að reyna að ná bænum á sitt vald. Þeir hafa mætt harðri mótspyrnu og eitt sinn virðist sem skotið hafi verið á rússnesku hermennina af félögum þeirra. Þetta kemur fram í samtali herforingjans við yfirmenn sína í Moskvu. Hann segir aðstæðurnar vera „hörmulegar“ og endurtekur samtal við yfirmenn sína á fjórða degi stríðsins þar sem þeir sögðu að „þessari sérstöku hernaðaraðgerð“ ljúki á „nokkrum klukkustundum“.
Þetta eru nú orðnar ansi margar klukkustundir og á þeim hafa hermennirnir í hersveit hans ekki fengið nægilega mikið af tjöldum eða öðrum búnaði til að halda hita á sér. Þeir eru heldur ekki með nægilega góð skotheld vesti til að verja þá fyrir árásum „úr öllum áttum“ eins og herforinginn segir að sögn á upptökunni.
Harðir bardagar hafa geisað nærri Mykolaiv þar sem úkraínski herinn hefur með góðri aðstoð heimamanna varist af hörku. Bærinn er á mörkum víglínunnar í suðri og með því að halda honum hefur Úkraínumönnum tekist að koma í veg fyrir að Rússar komist til hafnarborgarinnar Odessa.
Mikið mannfall hefur að sögn orðið hjá bæði Rússum og Úkraínumönnum að sögn Washington Post en engar opinberar tölur um mannfallið hafa verið birtar. Vitaliy Kim, héraðsstjóri í Mykolaiv, sagði í samtali við Washington Post að Rússar fjarlægi ekki lík hermanna sinna sem liggja í kringum bæinn. „Hundarnir geta ekki borðað svona mikið. Ekki heldur úlfarnir,“ sagði hann. Hann ætlar að reyna að sjá til þess að líkin verði sótt svo hægt verði að koma þeim í hendur ættingja síðar.