Upp úr sauð í sal Alþingis í dag þegar verið var að greiða atkvæði um hvort að þingfundur yrði lengdur í dag. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, bar tillöguna upp og kviknuðu heitar umræður um hana meðal þingmanna. Stjórnarandstaðan var á móti því að halda lengri þingfund en þegar gengið var til atkvæða var tillagan samþykkt með 29 atkvæðum gegn 21.
Í kjölfarið óskuðu einhverjir þingmenn eftir að því að atkvæðagreiðslan yrði endurtekin sem er viðtekin venja í þingsal. Þeirri beiðni neitaði Birgir forseti og þá varð allt vitlaust.
„Það er ekki ástæða til að fara fram á endurtalningu bara af einhverjum geðþótta háttvirts þingmanns,“ sagði Birgir eftir fyrstu beiðni um endurtalningu.
Andrés Ingi svaraði Birgi þá utan úr sal og sagðist ekki muna eftir því að rökstyðja þyrfti beiðni um nýja atkvæðagreiðslu. Birgir sagðist þá ekki hafa heyrt nein gild sjónarmið um að þörf væri á endurtalningu og því skyldi fyrsta atkvæðagreiðslan standa.
Andrés steig í kjölfarið í pontu og benti Birgi á að hefð væri fyrir því að beiðnir um endurtalningar væru samþykktar.
„Þegar beðið er um endurtakningu þá verða forsetar einfaldlega við því, þeir hafa einfaldlega orðið við því. Nema forseti vilji fela þá staðreynd að stjórnarliðar spruttu hér úr sætum um leið og þeir gátu til þess að þurfa ekki að horfa framan í fólkið sem það ætlar að láta sjá eitt um lýðræðislega umræðu í þessum sal. Stjórnarliðarnir sem segja okkur að hætta að væla og mæta bara í vinnuna eru öll horfin í mat eða út í bæ eða hvert sem er,“ sagði Andrés hvass.
„Hér er tómur ráðherrabekkur fyrir utan umhverfis-, orku- og auðlindaráð – nei eða hvað hann heitir, og forseti stendur með þessu. Forseti alls Alþingis á að standa með öllu Alþingi ekki stjórnarliðum sem geta ekki einu sinni setið á rassinum í gegnum eina einustu atkvæðagreiðslu. Það var ekki meira sem við vorum að biðja um en að þeir myndu sitja hér í sætum sínum og greiða atkvæði um lengda þingfundinn sem er ekki þörf á nema vegna skipulagsleysis forseta og ríkisstjórnar,“ bætti Andrés Ingi við og þingmenn tóku undir.
Birgir tók til máls eftir hlé og sagðist þar hafa verið „full fljótur á sér“ að úrskurða að ekki skyldi verða við ósk Andrésar um endurtekningu atkvæðagreiðslunnar. „Enda er það svo að miðað við ákvæði þingskapa sem athygli forseta var vakin á er ekki um það að ræða að sett séu skilyrði fyrir því að þingmenn geti óskað eftir endurtekningu atkvæðagreiðslu við lok hennar.“