Neyðarfundur leiðtoga Atlantshafsbandalagsins, NATÓ, Evrópusambandsins og G7-ríkjanna, hófst í Brussel klukkan átta í morgun.
Framkvæmdastjóri Nató, Jens Stoltenberg, sagði í viðtali í dag, þar sem hann fór yfir stöðuna, að Nató ætli að tryggja Úkraínu búnað til að verja sig gegn efna-, líefna– og kjarnorkuvopnum.
Stoltenberg segist óttast að Rússar séu að reyna að búa til yfirskin til að geta nýtt efnavopn í Úkraínu. Þetta séu þeir að gera með því að saka Bandaríkin og fleiri um að vera að undirbúa slíkar árásir, en í rússneskum fjölmiðlum er fátt annað rætt en meint efnavopnaframleiðsla Bandaríkjanna í Úkraínu. Bandaríkin hafa þó þverneitað því að nokkuð sé hæft í þessum ásökunum.
Stoltenberg segir að slíkar árásir væru til þess fallnar að hafa bein áhrif á aðildarríki Nató með mengun og útbreiðslu.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur einnig birt yfirlýsingu í tilefni af fundinum þar sem hann segir að fundurinn hafi notið þeirra forréttinda að ræða beint við Volodimír Zelenskí, forseta Úkraínu.
„Við munum halda áfram að styðja við hann og ríkisstjórn hans með verulegum og stigmagnandi öryggisaðgerðum til að berjast gegn Rússum og til að nýta réttindi þeirra til sjálfsvarnar.“
Biden greindi frá því að fundurinn hafi ákveðið að koma á fót fjórum nýjum herliðum í Slóvakíu, Rúmeníu, Búlgaríu og Ungverjalandi.
„Það er skýrt merki þess að við munum í sameiningu verja og vernda hvern millimetra af landsvæði Nató.“
Rétt í þessu birti NATÓ yfirlýsingu í tilefni af fundinum á vefsíðu sinni.
Þar segir:
„Við sem leiðtogar og ríkisstjórnir 30 Nató-ríkjanna hittumst í dag til að ræða um hernaðaraðgerðir Rússa gegn Úkraínu, sem er alvarlegasta ógn við öryggi Evrópu og ríkja Atlantshafsins áratugum saman. Stríð Rússa gegn Úkraínu hefur rofið friðinn í Evrópu og er að valda gífurlegri þjáningu og eyðileggingu.“
Í yfirlýsingunni kemur fram að NATÓ fordæmi innrásina alfarið og kallað er eftir því að forseti Rússlands, Vladimír Pútín, stöðvi stríði undir eins og dragi herlið sitt frá Úkraínu. Eins er því beint að Hvíta-Rússlands að láta af stuðningi sínum við innrásina.
„Úkrínumenn hafa veitt heiminum innblástur með hetjulegri mótstöðu sinni við ruddalegt stríð sem snýst um yfirráð. Við fordæmum hrottalegar árásir Rússa gegn óbreyttum borgurum, þeirra á meðal konum, börnum og fólki í viðkvæmri stöðu.“
Nató segist einnig hafa miklar áhyggjur af hættunni á auknum kynferðisbrotum og mansali í tengslum við stríðið.
Nató hvetur jafnramt Rússland til að opna leiðir fyrir mannúðaraðstoð, einkum til umsetnu borgarinnar Maríupol og að tryggja sem fyrst öruggar flóttaleiðir út úr borgunum.
„Við munum halda áfram að berjast gegn lygum Rússa um innrásina í Úkraínu og afhjúpa uppspuna eða uppskáldaðar aðgerðir til að leggja veginn fyrir frekari árásir, þar á meðal gegn borgurum Úkraínu. Öll nýting Rússa á efna- eða lífefnavopnum er óásættanleg og mun leiða til alvarlegra afleiðinga.“
Nató segir að Rússar þurfi að sýna í verki að þeim sé alvara í friðarviðræðum með því að semja strax um vopnahlé og með því að vinna sig í átt að því að draga herlið sitt til baka.
„Við stöndum með Zelenskí forseta, ríkisstjórn Úkraínu og með hugrökku úkraínsku borgurunum sem eru að verja sitt heimaland. Við heiðrum þá sem hafa látið lífið, særst sem og þá sem eru á flótta vegna stríðsins, og eins fjölskyldur þeirra.“
Nató ítrekar svo óbilandi stuðning sinn við sjálfstæði, fullveldi og landhelgi Úkraínu og benda á að Úkraína hafi þau grundvallarréttindi að mega verja land sitt.
Eins horfir Nató til Kína og segir að ummæli embættismanna Kína undanfarið valdi áhyggjum. Kallað er eftir því að Kína styðji ekki við Rússa svo sem með því að hjálpa þeim að komast framhjá efnahagsþvingunum. Eins er Kína beðið um að hætta að gefa áróðursherferð Rússa byr undir báða vængi.
Nató rekur að nú hafi varnaráætlun bandalagsins verið virkjuð og hafi þeir styrkt stöðu sína á landamærunum við Rússland, sem sem með auknu herliði og búnaði. Bandalagið sé þar að auki að undirbúa sig undir breyttan veruleika þar sem öryggi sé ekki sjálfgefið.
„Ákvörðun Pútíns að ráðast á Úkraínu var misráðin, og hefur valdið alvarlegum afleiðingum sem hafa einnig haft áhrif á Rússland og rússnesku þjóðina. Við erum áfram sameinuð og ákveðin í því að standa gegn hernaðaraðgerðum Rússa, og í því að hjálpa ríkisstjórn Úkraínu og úkraínsku þjóðinni sem og að verja öryggi allra aðildarríkja.“