Björn Ingi Hrafnsson á Viljanum er kominn til Úkraínu þar sem hann er að vinna að umfjöllun um stríðið og hefur boðið íslenskum fjölmiðlum að kaupa efni af sér.
Hann birtir myndskeið á Facebooksíðunni sinni bæði frá Póllandi og Úkraínu. Áður en hann fór yfir landamærin kom hann við í Przemyśl í Póllandi og segir það hafa verið magnaða upplifun að spjalla við flóttafólkið sem var að koma frá Úkraínu, og að sögurnar sem hann hafi heyrt séu þannig að hann eigi eiginlega ekki orð.
„Ótrúleg upplifun að spjalla við fólk sem þarf að yfirgefa allt sitt með 1-2 töskur og fullkomna óvissu um framtíðina. Grátandi mæður með lítil börn,“ skrifar hann.
„Fólk er að koma þaðan sem það er búið að vera sambandslaust við umheiminn í marga daga, rafmagnslaust, vatnslaust, allslaust og er núna farið að segja sögu sína. Ég var líka í nótt að fylgjast með flóttamannamiðstöðinni þar sem verið var að taka á móti flóttamönnum í alla nótt,“ segir hann í myndskeiði en síðan lá leiðin til Úkraínu.
Björn Ingi fékk far yfir landamærin með hjálparstarfsfólki og sat innan um birgðapoka sem verið var að fara með til Úkraínu en bíllinn myndi síðan flytja fólk til Póllands á bakaleiðinni.
Hann er nú kominn til Lviv í vesturhluta Úkraínu. „Pínu svefnlaus, en spenntur fyrir næstu dögum. Búið að kenna mér á loftvarnarbyrgið og hér er útgöngubann frá 10 á kvöldin til sex að morgni. Þá mega engin ljós sjást úr íbúðinni og slökkva þarf á sjónvarpinu,“ skrifar Björn Ingi.