Það var þjálfari hennar, Anastasia Meshchanenkova, sem skýrði frá láti hennar á Instagram.
„Það er ekki hægt að trúa þessu. Þessi yndislega manneskja er strax orðin engill. Ég skil ekki að við búum í svona hræðilegum og grimmum heimi,“ skrifaði Iliana Raeva, forseti búlgarska fimleikasambandsins, um Kateryna.
Samkvæmt fréttum frá Úkraínu þá var Kateryna heima hjá sér í Maríupól þegar sprengja lenti á húsinu.
Andlát hennar er auðvitað ekki hörmulegra eða minna hörmulegt en lát annarra sem hafa fallið í stríðinu en það hefur vakið athygli á alþjóðavettvangi þar sem Kateryna þótti eiga glæsta framtíð fyrir sér í fimleikum.
Faðir hennar er einnig sagður hafa látist en móðir hennar og bróðir lifðu sprengjuárásina af.
„Hún dó. Hún dó bara af því að hún var í vegi fyrir rússneska hernum sem ætlar að brenna þessa sögufrægu borg til grunna. Hún verður ekki einu sinni jarðsett. Engin mun geta heimsótt hana í kirkjugarðinn. Í huga mínum er bara mynd af lítilli stúlku í plastpoka. Grafin í garðinum. Þannig er fólkið grafið núna. Er þetta virkilega 21. öldin,“ skrifaði Lidia Vynodradna, alþjóðlegur fimleikadómari, á Instagram um andlát Kateryna.