fbpx
Mánudagur 24.febrúar 2025
Fréttir

Filippeyskar au-pair stúlkur borga allt að 400 þúsund krónur fyrir drauminn um vist á Íslandi

Björn Þorfinnsson
Fimmtudaginn 24. mars 2022 12:00

Myndin er samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dæmi eru um að au-pair stúlkur frá Filippseyjum sem koma hingað til lands á vistráðningarsamningi hafi greitt allt að 400 þúsund krónur til óprúttinna þriðja aðila fyrir að koma sér í samband við áhugsamar íslenskar fjölskyldur. Slíkar sögur hafa borist inn á borð Útlendingastofnunar sem lítur þær alvarlegum augum og verður upplýsingunum komið áfram til lögreglu. Rétt er að geta þess að engar vísbendingar eru um að íslenskir aðilar séu viðriðnir málin.

Dvölin á Íslandi opnar dyr

Vistráðningar einstaklinga frá Filippseyjum njóta talsverða vinsælda hérlendis en sæta ströngum reglum. Slíkar ráðningar eru óháðar kyni en nánast undantekningalaust eru það stúlkur sem koma hingað til lands á slíkum samningum. Þær verða að vera á bilinu 18 – 25 ára þegar umsókn er skilað inn og sérstaklega er tekið fram að þær megi ekki setjast að hérlendis í kjölfarið. Hin vistráðna má aðeins dveljast í eitt ár hérlendis, og auk húsaskjóls og uppihalds fær viðkomandi 60 þúsund krónur á mánuði í vasapening í skiptum fyrir létt heimilisstörf og barnagæslu.

Borga allt að 55% af heildartekjum í þóknun

Það þýðir að au-pair stúlkur sem koma hingað til lands geta búist við því að fá alls 720 þúsund krónur í vasapening á meðan dvöl þeirra stendur og í því samhengi eru 400 þúsund króna einsgreiðsla afar þungur baggi.

DV hefur upplýsingar um nokkur tilvik þar sem að filippeyskar au-pair stúlkur upplýstu íslenskar vistráðningarfjölskyldur sínar um hvernig þær komust til Íslands. Sögur þeirra voru allar á sömu leið og tengjast allar sömu filippeysku au-pair stúlkunni, sem við skulum nefna Noru til einföldunar.

Nora réð sig til íslenskrar fjölskyldu á höfuðborgarsvæðinu fyrir rúmu ári. Eftir að hafa dvalið hér í einhvern tíma fór hún að setja sig í samband við aðrar íslenskar fjölskyldur og sagðist geta mælt frænkum sínum sem hefðu áhuga á að koma til Íslands sem au-pair stúlkur. Enginn skyldleiki var hinsvegar milli þessara stúlkna og Noru, og síðar kom í ljós að  hún var að rukka hinar um háar fjárhæðir á bak við tjöldin, allt að 400 þúsund krónur eins og áður segir, sem hinar borguðu í örvæntingu sinni um betra líf.

Það sem er undir er nefnilega ekki eitt ár á Íslandi heldur opnar vistin hér oft tækifæri á frekari ráðningar á Norðurlöndum. Algengt er að au-pair stúlkur fari frá Íslandi til Noregs og Danmerkur þar sem að reglurnar eru sveigjanlegri. Til að mynda má au-pair stúlka vera allt að því 30 ára gömul í Danmörku og þar er heimilt fyrir þær að dvelja í tvö ár.

Nora aðeins lítið peð

Eins og áður segir hefur DV upplýsingar um nokkur tilvik þar sem að au-pair stúlkur greindu vistráðningarfjölskyldum sínum frá því að þær hafi borgað Noru háar fjárhæðir fyrir að koma á sambandinu við íslenskar fjölskyldur. Í að minnsta kosti einu tilviki tók íslensk vistráðningarfjölskylda sig til, gekk á Noru og krafði hana um endurgreiðslu á upphæðinni. Annars yrði leitað til lögreglu vegna málsins.

Viðbrögð Noru, sem nýlega er flutt af landi brott og réð sig sem au-pair á Norðurlöndum, voru þau að hún sagðist aðeins vera peð í málinu og að peningarnir færu að stærstum hluta til annarrar konu frá Filippseyjum.

Stúlkan, sem lét íslensku fjölskylduna vita um greiðsluna til Noru, á stóra fjölskyldu í Filippseyjum. Þar rekur móðir hennar veitingastað og í kjölfarið af kröfunni um endurgreiðslu fjárhæðarinnar var þeim skilaboðum komið til móðurinnar að dóttirin skyldi hafa sig hæga á Íslandi.

Þórhildur Ósk Hjaltlín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, staðfestir í skriflegu svari til DV að þessar sögur séu komnar inn á borð stofnunarinnar og að lögregla verði upplýst um málin.

Ekki er þó ljóst á þessari stundu hvort að Nora hafi verið ein í þessari skuggalegu starfsemi hérlendis eða hvort að vandamálið sé víðfemara.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Heitir þú Jóhann, Kristófer eða Guðrún? Þá gætir þú átt inni pening

Heitir þú Jóhann, Kristófer eða Guðrún? Þá gætir þú átt inni pening
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta ætlar nýr meirihluti í borginni að gera

Þetta ætlar nýr meirihluti í borginni að gera