Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að útfararstofurnar hafi aðstoðað hver aðra þannig að ekki hafi hlotist stór vandræði. Stórar sendingar af líkkistum eru að koma til landsins þessa dagana.
Guðný Hildur Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Útfararstofu kirkjugarðanna, staðfesti við Morgunblaðið að mikið hafi verið að gera í febrúar og mars og Frímann Andrésson, útfararstjóri hjá Frímanni og Hálfdáni útfararþjónustu, tók í sama streng og nefndi síðustu tvær til þrjár vikur sérstaklega í þessu sambandi.
Hvorugt þeirra gat sagt til um ástæðuna fyrir mörgum dauðsföllum þessa dagana en Frímann benti á að dánartíðnin sveiflist yfir árið. Þau treystu sér ekki til að tengja annríkið nú við dauðsföll af völdum COVID-19.