Guðmundur R. Guðlaugsson fær greiddar rúmlega 15 milljónir í bætur frá ríkinu vegna afleiðinga þvingunarráðstafana lögreglu samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll þann 22. mars.
Áður hafði héraðsdómur dæmt honnum 5,6 milljónir í bætur en Landsréttur ómerkti þann dóm og fór hann því aftur í hérað.
Forsaga málsins er sú að árið 2010 var Guðmundur handtekinn og hnepptur í gæsluvarðhald vegna gruns um að hann tengdist smygli á töluverðu magni af sterku kókaíni til landsins.
Var Guðmundur í gæsluvarðhaldi og einangrun samhliða í 10 daga. Þurfti hann þá að dveljast í sex fermetra klefa í lögreglustöðinni á Hverfisgötu, en klefinn var gluggalaus og logaði þar ljós allan sólarhringinn. Auk þess barst mikill hávaði þangað frá fólki sem hafði verið fært á stöðina í misjöfnu ástandi, einkum um nætur og þá sérstaklega um helgar. Naut Guðmundur engrar útivistar á meðan á varðhaldinu stóð. Komst Hæstiréttur að því með dómi sínum árið 2016 að Guðmundur hafi mátt sæta vanvirðandi meðferð og eins að lögregla hafi ekki gætt meðalhófs við handtöku hans heldur farið þar offari sem ekki hafi verið tilefni fyrir.
Guðmundur var ekki ákærður í málinu og taldi Hæstiréttur að Guðmundur ætti rétt til miskabóta frá ríkinu vegna fjölda þvingunarráðstafana sem beindust gegn honum að ósekju, en sími hans hafði verið hleraður og húsleit gerð á heimili hans, geymslu og bankahólfi. Hæstiréttur dæmdi Guðmundi 2 milljónir í miskabætur.
Nú hafa Guðmundi enn fremur verið dæmdar bætur fyrir varanlegan miska, tímabundið atvinnutjón og þjáningarbætur, eða alls um 15 milljónir króna.
Fyrir dómi var rakið að handtakan og gæsluvarðhaldið hafi haft gífurlegar afleiðingar á líf Guðmundar. Í kjölfar gæsluvarðhaldsins missti hann vinnuna og glímdi svo við alvarlegan kvíða, þunglyndi og alvarlega áfallastreituröskun.
Upplifði Guðmundur handtökuna sem mikla niðurlægingu og þrátt fyrir að hafa verið duglegur að leita sér aðstoðar og endurhæfingar hafi það ekki skilað ætluðum árangri og þegar matsgerð í málinu var rituð hafði Guðmundur ekki verið á vinnumarkaði í fimm ár í kjölfar handtökunnar.
Héraðsdómur rakti að þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi dæmt Guðmundur tvær milljónir í miskabætur þá takmarkaði það ekki rétt hans til að sækja þær bætur sem hann sóttist eftir vegna ofangreindra liða. Alls mat dómurinn að tímabundið atvinnutjón næmi rúmlega 18,3 milljónum en frá því voru dregnar greiðslur sem hann hafði fengið með starfslokasamningi, frá Tryggingastofnun, sjúkrasjóði VR sem og öðrum sjóðum.
Svo var metið að lögreglu hafi verið rétt að framkvæma húsleit og handtaka Guðmund. Þó hafi lögreglumenn farið offari við handtökuna og gæsluvarðhald varað mun lengur en tilefni gaf til, auk þess sem aðstæður Guðmundar í varðhaldinu hafi verið óásættanlegar.
Ríkið hélt því fram að taka bæri tillit til þess að Guðmundur hefði glímt við andleg veikindi áður en til handtökunnar. Þessu hafnaði héraðsdómur og tók fram að Guðmundur hefði fyrir handtökuna verið búinn að ná góðum tökum bata, ráðið sig í ábyrgðarmikið starf og liðið prýðilega. Í skaðabótarétti sé það svo að jafnvel þó þolandi tjóns sé viðkvæmur eigi hann áfram rétt til fullra bóta ef sýnt þyki að hann hafi þrátt fyrir veikleika sína getað lifað eðlilegu lífi.
Guðmundur steig fram í viðtali við Fréttablaðið árið 2019 þegar hann stefndi ríkinu í máli þessu. Þar sagði hann:
„Ég glími enn við áfallastreitu og mikla vanlíðan vegna þessara atburða og það þarf lítið til að vanlíðanin rjúki upp.“