Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Þegar könnunin var lögð fyrri 2006 sögðust 36% íslenskra stúlkna í 10. bekk hafa stundað kynlíf og 29% stráka. Hlutfall stúlknanna hefur því lækkað um þriðjung en aðeins lítillega hjá strákunum.
Niðurstöðurnar hér á landi eru í samræmi við heildarniðurstöður rannsóknarinnar í Evrópu og Norður-Ameríku þar sem hlutfall 15 ára unglinga sem hafa einhvern tíma haft samfarir lækkar úr 27% 2006 niður í 19%. Þetta hefur Fréttablaðið eftir Ársæli Arnarssyni, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem er faglegur stjórnandi íslensku rannsóknarinnar.
„Kynferðisleg virkni er eðlilegur fylgifiskur kynþroskans sem unglingar ganga í gegnum. Fyrstu skrefin geta hins vegar verið flókin og ef þau eru tekin áður en einstaklingurinn er tilbúinn þá geta af leiðingarnar verið neikvæðar,“ er haft eftir honum. Hann sagði jafnframt að þeir krakkar sem byrja snemma að stunda kynlíf séu líklegri til að leiðast út í áhættuhegðun.
Hvað varðar það að færri unglingar byrji snemma að stunda kynlíf sagði hann að ástæðuna sé ekki að finna í heimsfaraldrinum því þessi þróun hafi verið byrjuð áður en hann skall á. Líklega hafi minnkandi áfengisneysla unglinga mikið að segja í þessu en drykkja íslenskra unglinga hefur minnkað mikið síðustu áratugi og sama þróun hefur orðið í samanburðarlöndum en þó ekki eins afgerandi og hér á landi. „Kannski má orða það svo að ófullir unglingar taki betri ákvarðanir,“ sagði Ársæll.
Hann sagði það mikil vonbrigði hversu lítil smokkanotkunin væri í þessu aldurshópi en 18% sögðust hafa notað smokk við síðustu samfarir. Hann sagði þetta auðvitað koma fram í hárri tíðni kynsjúkdóma hér á landi.